Fara í efni
KA

Öruggur sigur KA/Þórs á Haukum

Anna Þyrí Halldórsdóttir svífur inn af línunni í dag. Hún gerði þrjú mörk í leiknum. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

KA/Þór vann öruggan sigur á Haukum, 34:26, í Olís deild Íslandsmótsins í handbolta í KA-heimilinu í dag. Rut Jónsdóttir fór hamförum í leiknum og gerði 12 mörk.

Leikurinn var bráðskemmtilegur, hraðinn mikill og fyrri hálfleikurinn býsna jafn. Staðan í hálfleik var 14:11 en KA/Þór tók svo völdin í seinni hálfleiknum og vann mjög þægilegan sigur. 

Þegar 20 mínútur voru liðnar fékk Berta Rut Harðardótt­ir, leikmaður Hauka, rautt spjald og var þar með rekin af velli fyrir fullt og allt; braut afar klaufalega á Krist­ínu Aðal­heiði Jó­hanns­dótt­ur, þegar hún fór inn úr horninu. Kristín meiddist á fæti, var borin af velli og kom ekki meira við sögu.

Mörk KA/Þórs: Rut Jónsdóttir 12 (1 víti), Rakel Sara Elvarsdóttir 6, Aldís Ásta Heimisdóttir 4, Anna Þyrí Halldórsdóttir 3, Hulda Bryndís Tryggvadóttir 2, Anna Mary Jónsdóttir 2, Ásdís Guðmundsdóttir 2, Hildur Lilja Jónsdóttir 1, Unnur Ómarsdóttir 1, Martha Hermannsdóttir 1 (1 víti).

Matea Lonac varði 16 skot.

Eftir sigurinn er KA/Þór komið með 21 stig og er enn í þriðja sæti deildarinnar, þremur stigum á eftir Val sem er í öðru sæti en Stelpurnar okkar eiga leik til góða. Fram er stigi ofan við Val en hefur lokið 16 leikjum eins og KA/Þór, sem getur því enn náð öðru hvoru toppsætinu. Þau veita keppnisrétt í undanúrslitum um Íslandsmeistaratitilinn en liðin í þriðja til sjötta sæti leika um hin tvö sæti undanúrslitanna.