Fara í efni
KA

Öruggur sigur á Val og KA í úrslitakeppnina

KA-strákarnir fagna sanngjörnum sigri á Valsmönnum í kvöld og þar með öruggu sæti í úrslitakeppninni. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

KA vann öruggan og sanngjarnan sigur á Val, 34:29, í Olís deildinni í handbolta á heimavelli í kvöld. KA-strákarnir eru nú öruggir með sæti í átta liða úrslitakeppni um Íslandsmeistaratitilinn en ekki kemur í ljós hver mótherji þeirra í fyrstu umferð verður fyrr en eftir lokaumferð deildarkeppninnar á föstudagskvöldið.

FH vann Gróttu örugglega í kvöld og tryggði sér deildarmeistaratitilinn því Valur varð að vinna KA til að eiga möguleika á þeim titli. Í ljósi úrslita kvöldsins ræðst ekki fyrr en á föstudaginn hvort Valur eða Afturelding verður í 2. sæti en svo skemmtilega vill til að liðin mætast þá. Valur hefur eins stigs forskot.

KA og Stjarnan bítast um 7. sætið. KA er nú með einu stigi meira en mætir deildarmeisturum FH í Hafnarfirði á föstudaginn á sama tíma og Stjarnan leikur við Víking, sem er fallinn.

Það lið sem endar í 8. sæti mætir FH í fyrstu umferð úrslitakeppninnar en liðið í 7. sæti sæti annað hvort Val eða Aftureldingu.

Daninn Nicolai Horntvedt Kristensen í marki KA reyndist Valsmönnum óþægur ljár í þúfu í kvöld. 

Fyrri hálfleikur í KA-heimilinu var jafn og spennandi en KA-menn höfðu eins marks forystu að honum loknum, 14:13. Í seinni hálfleik tóku þeir fljótlega frumkvæðið og munurinn jókst jafnt og þétt. KA-strákarnir blómstruðu í sókninni, voru fastir fyrir í vörninni og í markinu var Daninn Nicolai Horntvedt Kristensen í stuði. Valsmenn voru hins vegar töluvert frá sínu besta; sóknin var þokkaleg á köflum en hvorki vörn né markvarsla til útflutnings.

Varnartröllið Ólafur Gústafsson var í þrígang rekinn af velli í tvær mínútur í fyrri hálfeik; í þriðja sinn þegar aðeins voru liðnar 22 mín. og hann þá útilokaður frá frekari þátttöku. Það hafði þó ekki þau áhrif sem einhverjir óttuðust líklega. Samherjar hans þjöppuðu sér enn betur saman, léku við hvern sinn fingur og lögðu gestina að velli með sannfærandi hætti.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna

Skarphéðinn Ívar Einarsson og Einar Birgir Stefánsson voru sterkir í vörninni. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson