Fara í efni
KA

Öll úrslit óhagstæð og KA í neðri hlutanum

Harley Willard rétt áður en hann skoraði fyrsta mark sitt í efstu deild - í fyrri leiknum gegn Fylki í sumar. Hann skoraði aftur gegn Fylkismönnum í dag. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

KA-menn verða að bíða í það súra epla að leika í neðri hluta Bestu deildarinnar, efstu deildar Íslandsmótsins í knattspyrnu, í þeirri fimm leikja framlengingu sem tekur nú við. KA gerði 1:1 jafntefli við Fylki í Árbænum í dag og endar því í sjöunda sætinu. Sex efstu liðin mætast innbyrðis svo og þau sex neðstu. 

Þar sem KA náði ekki að sigra Fylki skiptu önnur úrslit ekki máli. Sigur KA-manna hefði reyndar ekki dugað til að komast í efri hlutann þegar upp var staðið þar sem FH sigraði Breiðablik og KR náði í eitt stig í Vestmannaeyjum.

  • 0:1 – Daníel Hafsteinsson átti laglega sendingu inn fyrir flata Fylkisvörnina á Harley Willard sem var einn á auðum sjó og skoraði örugglega; renndi boltanum framhjá Ólafi Kristófer markverði sem kom út á móti honum. Aðeins fáeinum andartökum áður munaði litlu að Fylkismenn skoruðu en KA-menn voru eldsnöggir að snúa vörn í sókn.

Willard var nálægt því að koma KA í 2:0 á 31. mín. Eftir glæsilegt spil KA-manna fékk Willard boltann í upplögðu færi en Ólafur Kristófer gerði mjög vel að verja skot hans í horn.

Seinni hálfleikurin var einungis fjögurra mínútna gamall þegar Hallgrímur Mar Steingrímsson fékk dauðafæri við Fylkismarkið. Sveinn Margeir Hauksson átti glæsilega sendingu inn fyrir vörnina en skot Hallgríms fór hárfínt framhjá fjærstönginni.

  • 1:1 – Vítaspyrna var dæmd á KA á 51. mín. þegar Ívar Örn Árnason braut á Ólafi Karli Finsen eftir darraðardans í vítateignum. Ólafur Karl tók spyrnuna sjálfur og skoraði af miklu öryggi.

KA-menn verða því að gera sér sjöunda sætið að góðu sem fyrr segir. Framundan eru fimm leikir í deildinni sem skipta KA nánast engu máli því liðið kemst ekki ofar í deildinni og fallbaráttan er víðs fjarri.

Einn gríðarlega mikilvægur leikur er þó eftir á keppnistímabilinu, bikarúrslitaleikurinn gegn Víkingi á Laugardalsvelli laugardaginn 16. september. KA-menn ætla sér að vinna bikarinn í fyrsta skipti en geta þó nú þegar fagnað því að sæti í Evrópukeppni á næsta ári er tryggt, sama hvernig úrslitaleikurinn fer. Yfirburðir Víkinga í deildinni eru svo miklir að þeir eru komnir með nánast alla 10 fingurna á Íslandsbikarinn þótt fimm leikir séu eftir.  

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna

Smellið hér til að sjá stöðuna í deildinni

Leikir KA í lokakafla Bestu deildarinnar:

  • Miðvikudag 20. september klukkan 16.15
    KA – Keflavík
  • Sunnudag 24. september 17.00
    Fylkir – KA
  • Fimmtudag 28. september 16.15
    KA – ÍBV
  • Sunnudag 1. október 16.15
    Fram – KA
  • Laugardag 7. október 14.00
    KA – HK