Fara í efni
KA

Ögurstund hjá stelpunum í dag

Rut Jónsdóttir og Aldís Ásta Heimisdóttir hafa leikið mjög vel með KA/Þór í vetur, bæði í sókn og vörn. Hér stöðva þær Karolina Olszowa um síðustu helgi. Góður varnarleikur verður án efa lykill að sigri í dag. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Síðasti leikur KA/Þórs og ÍBV í undanúrslitum Íslandsmóts kvenna í handbolta fer fram í dag í KA-heimilinu. Hvort lið hefur unnið einn leik, Eyjaliðið vann þann fyrsta 27:26 í KA-heimilinu um síðustu, en Stelpurnar okkar gerðu svo góða ferð til Eyja á miðvikudaginn og unnu 24:21.

KA/Þór varð deildarmeistari í vor eftir afar góða og jafna frammistöðu í allan vetur. Liðið gerði hins vegar óvenju mörg mistök um síðustu helgi en sýndi sitt rétta andlit í Eyjum, sérstaklega var varnarleikurinn frábær í fyrri hálfleik; það er gömul saga og ný að góður varnarleikur er gulls ígildi í handbolta og raunar grunnur að góðum árangri.

Lið Þórs/KA á að vinna í dag ef allt verður með felldu, en leikurinn verður örugglega erfiður, enda hafa allar viðureignir liðanna í vetur verið jafnar og spennandi. Stór hópur stuðningsmanna ÍBV setti skemmtilegan svip á leikinn í KA-heimilinu um síðustu helgi, von er á svipuðum fjölda úr Eyjum í dag þannig að stemningin verður án efa frábær því jafn öruggt er og veðrið er oftast gott á Akureyri að stuðningsmenn Akureyrarliðsins fjölmenn og styðja sem mest þeir mega við bakið á deildarmeisturunum!

Leikurinn hefst klukkan 15.00 verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.

Ástæða er til að hvetja sem allra flesta til að mæta á leikinn og hvetja stelpurnar til dáða. Sigurvegarar dagsins mæta Valsmönnum í úrslitarimmunni um Íslandsmeistaratitilinn. Áfram KA/Þór!