Fara í efni
KA

Öflugt teymi – aukin samvinna milli flokka

Þjálfarateymið. Aftari röð frá vinstri: Aron Birkir Stefánsson, Sigurjón Bjarnason, Hulda Björg Hannesdóttir, Siguróli Kristjánsson og Egill Ármann Kristinsson. Fremri röð frá vinstri: Ágústa Kristinsdóttir, Pétur Heiðar Kristjánsson, Jóhann Kristinn Gunnarsson og Birkir Hermann Björgvinsson. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Stjórn Þórs/KA hefur lokið við að mynda öflugt þjálfarateymi í kringum starfsemi félagsins, en Þór/KA rekur meistaraflokk, 2. flokk og 3. flokk kvenna í knattspyrnu undir sínum merkjum. Ráðning þjálfara og samsetning teymisins gengur meðal annars út á aukið samstarf og tengsl milli meistaraflokks og yngri flokkanna, að því er segir í tilkynningu.

Flestir þeirra þjálfara sem nú hafa undirritað samninga við félagið höfðu þegar hafið störf þegar æfingar hófust í október og nóvember, en nú má segja að teymið í kringum alla flokka félagsins sé fullmyndað og tilbúið í slaginn.

„Áður hafði Jóhann Kristinn Gunnarsson skrifað undir samning sem aðalþjálfari meistaraflokks, en undanfarið hefur verið unnið að því að raða í störf í þjálfarateyminu og mynda öflugt teymi til að halda utan um hinn stóra og öfluga hóp sem félagið býr að í meistaraflokki og 2. og 3. flokki. Sú breyting verður meðal annars með undirskriftum núna að þjálfarar yngri flokkanna verða einnig hluti af þjálfarateymi meistaraflokks og samvinna og tengsl á milli flokkanna aukin frá því sem áður hefur verið.“

Í dag bættust formlega í þjálfarateymið, með undirskriftum, þau Aron Birkir Stefánsson, Ágústa Kristinsdóttir, Birkir Hermann Björgvinsson, Egill Ármann Kristinsson, Hulda Björg Hannesdóttir, Sigurbjörn Bjarnason, Siguróli Kristjánsson og Pétur Heiðar Kristjánsson.

Þjálfarateymið verður þannig skipað: 

  • Jóhann Kristinn Gunnarsson, aðalþjálfari meistaraflokks
  • Pétur Heiðar Kristjánsson, aðstoðarþjálfari meistaraflokks, aðalþjálfari 2. flokks og afreksþjálfari yngri flokka
  • Ágústa Kristinsdóttir, yfirþjálfari yngri flokka og annar aðalþjálfara 3. flokks
  • Birkir Hermann Björgvinsson, aðstoðarþjálfari 2. flokks
  • Hulda Björg Hannesdóttir, annar aðalþjálfara 3. flokks
  • Aron Birkir Stefánsson, markvarðaþjálfari allra flokka
  • Siguróli Kristjánsson, yfirmaður knattspyrnumála og hugarfarsþjálfari
  • Egill Ármann Kristinsson, styrktarþjálfari
  • Sigurbjörn Bjarnason, styrktarþjálfari

Þjálfarateymið, raðað eftir flokkum:

  • Meistaraflokkur: Jóhann Kristinn og Pétur Heiðar
  • 2. flokkur: Pétur Heiðar, Birkir Hermann
  • 3. flokkur: Ágústa, Hulda Björg
  • Markverðir: Aron Birkir
  • Styrktarþjálfun: Egill Ármann og Sigurbjörn
  • Siguróli Kristjánsson – eða Moli eins og flestir þekkja hann – „mun gegna fjölbreyttu og víðtæku hlutverki með öllu þjálfarateyminu. Hann mun meðal annars vinna með leikmönnum varðandi hugarfarsþjálfun og verða þjálfarateyminu til ráðgjafar á breiðum grundvelli.“

Í tilkynningunni segir ennfremur: „Um alla þessa þjálfara og ferilskrá þeirra mætti skrifa langar fréttir og margar því flestir þessara einstaklinga hafa langa reynslu á sínu sviði. Mörg þeirra hafa starfað hjá Þór/KA áður og þekking þjálfarateymisins á leikmannahópum flokkanna því mikil og mun koma sér vel í því starfi sem fram undan er. Stjórn Þórs/KA bindur miklar vonir við þennan öfluga hóp og býður nýtt og eldra starfsfólk velkomið til starfa.“