Fara í efni
KA

Oddaleikur um titilinn í KA-heimilinu í kvöld

KA-stelpurnar fagna deildarmeistaratitlinum í byrjun apríl. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Kvennalið KA í blaki mætir liði Aftureldingar í oddaleik í úrslitarimmu um Íslandsmeistaratitilinn í blaki. Leikurinn fer fram í KA-heimilinu og hefst kl. 19.

KA hefur nú þegar unnið bikarkeppni Blaksambandsins, en liðið vann HK örugglega, 3-0, í úrslitaviðureign í mars og stelpurnar tryggðu sér deildarmeistaratitilinn í byrjun apríl. Þær gætu því unnið þrefalt ef hlutirnir ganga upp í kvöld.

Í úrslitakeppninni sló Afturelding lið Þróttar í Fjarðabyggð út í fyrstu umferð þegar liðin í 3.-6. sæti mættust. KA og Álftanes, sem enduðu í tveimur efstu sætum deildarinnar, biðu þar til í undanúrslitunum. Þegar í undanúrslitin kom vann KA lið Völsungs 2-0 og Afturelding, sem hafði endað í 3. sæti deildarinnar, vann Álftanes, 2-1.

Æsispennandi viðureignir

Úrslitarimman hefur verið æsispennandi, sérstaklega þriðji og fjórði leikur. KA vann fyrstu viðureingina, 3-1, en Afturelding svaraði með 3-0 sigri í Mosfellsbænum og „stal svo heimavellinum“ eins og sagt er með því að sigra 3-2 í KA-heimilinu í þriðju viðureigninni. Afturelding hafði því tækifæri til að tryggja sér titilinn í fjórða leik sem fram fór í Mosfellsbænum, en KA-stelpurnar „stállu heimavellinum“ til baka og unnu 3-2 í æsispennandi viðureign. Það er því hnífjafnt, 2-2, eftir fjórar viðureignir og komið að ögurstundu í kvöld.

Stuðningur og stemning geta gert útslagið

Gera má ráð fyrir fullu húsi og mikilli stemningu í kvöld og þar með sálrænu forskoti fyrir KA-stelpurnar þegar á hólminn er komið og bikarinn undir. En í íþróttum getur allt gerst, það hefur margsannast. Hvað gerist í kvöld? Tryggja KA-stelpurnar sér titilinn og vinna þrefalt eða stela stelpurnar úr Mosó heimavellinum aftur og fara með bikarinn suður? Það gæti verið undir stuðningsfólkinu komið því stemning og öflugur stunðningur geta geta gert útslagið.

Leikurinn verður í beinni útsendingu á RÚV 2 og hefst útsendingin kl. 18:50.