Fara í efni
KA

Nýr þjálfari og hópur fyrir fullorðna byrjendur

Júdódeild KA er komin með sér æfingarhóp fyrir fullorðna byrjendur. Flestir í hópnum eru pabbar sem eiga börn í júdó en allir sem hafa áhuga á því að prófa eru velkomnir. Mynd: Facebooksíða Júdódeildar KA

„Júdóið er aftur á uppleið,“ segir Sigmundur Magnússon, formaður júdódeildar KA, en á tveimur árum hefur iðkendum fjölgað um 100%.

Júdódeild KA, kom verulega illa út úr covid, eins og margar bardagaíþróttir, en margir iðkendur skiluðu sér ekki til baka eftir heimsfaraldurinn. Nú fyrst virðist deildin aftur vera að lifna við en iðkendundur eru nú orðnir 50 talsins en fóru niður í 25 þegar minnst var. Fyrir heimsfaraldurinn voru júdóiðkendur 80-100 talsins og segir Sigmundur að deildin ætli sér sannarlega þangað aftur.

Grískur þjálfari kominn til starfa

Júdeild KA fékk nýlega nýjan þjálfara til starfa, Eirini Fytrou, sem er grísk en hún var áður að þjálfa hjá júdódeild Selfoss. Síðasta árið hafa félagar í júdódeild KA, sem lært hafa þjálfarafræðin, séð um kennsluna hjá deildinni, en yfirþjálfara hefur hins vegar vantað. Sigmundur segir því að það hafi verið kærkomið að ná Eirini norður til að leiða starfið í vetur. „Hún hefur verið að gera virkilega góða hluti síðan hún kom og er að ná vel til krakkanna og foreldranna líka. Við fáum oft nýja iðkendur inn á haustin sem prófa nokkrar æfingar en endast ekki, en Erini hefur tekist að halda í þá sem hafa komið,“ segir Sigmundur. Hann bætir við að hún hafi einnig náð að sannfæra nokkra pabba, sem eiga börn í júdó, um að byrja að æfa svo nú er kominn byrjendahópur fyrir fullorðna, nokkuð sem hefur ekki verið lengi hjá félaginu. Vegna þessa aukna áhuga á júdóinu hefur líka æfingahópum fyrir börn og ungmenni verið fjölgað sem gerir hópana skemmtilegri þar sem bilið er minna milli iðkenda. 

Júdóið mýkir stirða og gamla skrokka. Þó það séu átök þá er þetta mjúk íþrótt og alls engin brútal slagsmál. Þetta er leikur og við höfum öll gott af því að leika okkur, en í leiknum leynast miklar styrktaræfingar.

Júdó góð hálkuvörn

Aðspurður um byrjendahópinn fyrir fullorðna segir Sigmundur að það sé aldrei of seint á byrja í júdó. Júdó sé frábær íþrótt sem liðkar iðkendur ekki bara upp heldur kennir þeim að detta, svo í raun sé júdó mjög góð hálkuvörn sem fækkað getur beinbrotum. „Júdóið mýkir stirða og gamla skrokka. Þó það séu átök þá er þetta mjúk íþrótt og alls engin brútal slagsmál. Þetta er leikur og við höfum öll gott af því að leika okkur, en í leiknum leynast miklar styrktaræfingar,“ útskýrir Sigmar og hvetur þá sem hafa áhuga til þess að koma og prófa en byrjendatímarnir fyrir fullorðna eru á þriðjudögum og fimmtudögum milli klukkan 19.30 og 20.30.

Nýi þjálfarinn, Eirini Fytrou, hefur náð mjög vel til krakkanna í júdódeild KA. Mynd: Facebooksíða júdódeildar KA.