KA
NÖKKVI BESTUR OG MARKAHÆSTUR
29.10.2022 kl. 16:11
Nökkvi Þeyr Þórisson, til vinstri, og Hallgrímur Mar Steingrímsson, sem gerði tvö mörk í dag, fagna 17. og síðasta marki Nökkva fyrir KA í sumar, gegn Víkingi á Greifavellinum. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson
Nökkvi Þeyr Þórisson var kjörinn besti leikmaður Bestu deildarinnar í knattspyrnu í sumar af leikmönnum deildarinnar. Þetta var kunngjört eftir lokaumferðina í dag.
- Þetta er í annað skipti sem KA-maður er kjörinn besti leikmaður efstu deildar Íslandsmótsins. Hinn er Þorvaldur Örlygsson sem leikmenn kusu bestan sumarið 1989, þegar KA varð Íslandsmeistari.
Ekki nóg með að Nökkvi Þeyr sé kjörinn bestur í sumar því hann fær einnig gullskóinn; varð markakóngur deildarinnar. Hann gerði 17 mörk, jafn mörg og Guðmundur Magnússon, leikmaður Fram, en Nökkvi fær skóinn eftirsótta því hann tók þátt í 20 leikjum en í Guðmundur 26 leikjum.
Mörk Nökkva í sumar:
- 1 ... ÍBV - KA 0:3
- 2 ... KA - Keflavík 3:2
- 1 ... KA - FH 1:0
- 1 ... Víkingur - KA 2:1
- 1 ... KA - Valur 1:1
- 1 ... KA - ÍBV 4:3
- 2 ... Leiknir R - KA 0:5
- 1 ... Keflavík - KA 1:3
- 1 ... FH - KA 0:3
- 2 ... KA - ÍA 3:0
- 3 ... Stjarnan - KA 2:4
- 1 ... KA - Víkingur 2:3
Nökkvi gerði 17. og síðasta markið gegn Víkingi á KA-vellinum (nýja Greifavellinum) 28. ágúst.