Fara í efni
KA

Nokkur sæti laus í ferð á seinni Evrópuleik KA

Leikmenn og stuðningsmenn KA fagna eftir sigurinn á Connah's Quay Nomads í síðustu viku.

KA-liðið í knattspyrnu flýgur á morgun beint frá Akureyri til Liverpool í Englandi en síðari viðureign KA-manna og Connah's Quay Nomads frá Wales í fyrstu umferð undankeppni Sambandsdeildar Evrópu fer fram ytra á fimmtudag. Stuðningsmönnum KA gefst tækifæri til að fljúga út með liðinu og enn eru nokkur sæti laus í ferðina, að sögn Sævars Péturssonar, framkvæmdastjóra félagsins.

Flogið verður frá Akureyri undir kvöld á morgun, þriðjudag. Leikurin fer fram á Park Hall Stadium í Oswestry í Englandi en þangað er 2 til 3 klukkustunda lestarferð frá Liverpool. Flogið verður heim frá Dublin á Írlandi á föstudag og lent á Akureyri rétt fyrir miðnætti.

Ferðin kostar 94.000 krónur á mann. Innifalið er flug, flugvallarskattar og ferja til Dublin.

Rétt er að vekja athygli á því að fólk þarf sjálft að útvega sér gistingu, ferðir á milli Liverpool og Oswestry eru heldur ekki innifaldar og ekki miði á leikinn.

KA vann fyrri leikinn 2:0 á Framvellinum í Úlfarsárdal og ætti að eiga góða möguleika á að komast áfram í keppninni.

Smellið hér til að fá nánari upplýsingar á heimasíðu KA.