Fara í efni
KA

Mörkin, vítakeppnin og gleðin – MYNDIR

Leikmenn KA, þjálfarar, stuðningsmenn, stjórnarmenn og starfsmenn fögnuðu vel og innilega eftir að liðið tryggði sér sæti í bikarúrslitaleiknum; hér Áskell Þór Gíslason og Rodri, sem skoraði úr síðasta vítinu. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

KA-menn eru komnir í bikarúrslit í knattspyrnu í fyrsta sinn í 19 ár eftir frækinn sigur á Breiðabliki í hreint magnaðri viðureign, eins og Akureyri.net sagði frá  í gærkvöldi: Ótrúlegt ævintýri og KA í bikarúrslit

Stundin á KA-svæðinu var ævintýri líkust og varla við hæfi hjartveikra! Eftir að KA náði forystu jöfnuðu gestirnir þegar hefðbundinn leiktíma var að renna út. Það héldu að minnsta kosti flestir, en þó var enn tími fyrir tvö mörk! Blikar komust yfir en KA jafnaði með síðustu spyrnunni! Staðan þá 2:2.

Blikarnir náðu forystu á ný í framlengingu en KA jafnaði 3:3 og því þurfti að grípa til vítaspyrnukeppni – og sú var heldur betur söguleg, eins og sjá má á myndunum hér að neðan. KA skoraði úr þremur vítum en Blikarnir aðeins úr einu af fjórum; úrslitin 6:4.

Ekki er ljóst hvort KA-menn mæta Víkingum eða KR-ingum í úrslitaleiknum því leik liðanna sem átti að vera í gær var frestað vegna þátttöku landsliðs 19 ára og yngri í lokakeppni Evrópumótsins sem stendur yfir á Möltu.

Ofanritaður var með myndavélina á KA-vellinum í gærkvöldi. Hér að neðan er myndaveisla af mörkunum sex, vítaspyrnukeppninni og fögnuði KA-manna þegar úrslitin lágu fyrir. Gjörið svo vel!

_ _ _

1:0 - ÁSGEIR KEMUR HEIMAMÖNNUM YFIR
Fyrirliði KA, Ásgeir Sigurgeirsson, gerði fyrsta mark leiksins á 57. mínútu. Hann fékk boltann frá Bjarna Aðalsteinssyni, sendi á Jakob Snæ Árnason sem þrumaði að marki úr miðjum vítateignum, Anton Ari markvörður Blika varði en boltinn barst til Ásgeirs á markteignum og  fyrirliðinn skoraði af öryggi.

_ _ _

1:1 - KLÆMINT OLSEN JAFNAR
Gestirnir sóttu af miklum þunga á lokakafla hefðbundins leiktíma og náðu að jafna á 86. mín. Viktor Karl Einarsson sendi boltann inn á teig af hægri kanti, Færeyingurinn Klæmint Olsen hafði betur í baráttu við Dusan Brkovic á markteignum og skallaði boltann í hægra hornið. 

_ _ _

1:2 - HÖSKULDUR KEMUR BLIKUM YFIR ÚR AUKASPYRNU
Allt virtist stefna í framlengingu en þegar vallarklukkan sýndi 90 mínútur fengu Blikar aukaspyrnu nokkrum metrum fyrir utan vítateiginn miðjan þegar dæmd var bakhrinding á Rodri. Höskuldur Gunnlaugsson (lengst til vinstri á myndunum) sendi boltann yfir varnarvegginn og  í markið; Jajalo markvörður kom við boltann en náði ekki að verja.

_ _ _

2:2 - ÍVAR ÖRN JAFNAR Á LOKASEKÚNDU LEIKSINS
Þegar Höskuldur skoraði var ein og hálf mínúta liðin af upp gefnum fimm mínútna uppbótartíma og allt leit út fyrir grátlegt tap KA-manna eftir hetjulega baráttu í sveiflukenndum leik. Uppbótartíminn lengdist aðeins vegna fögnuðar Blikanna og eftir baráttu í vítateig Breiðabliks fékk KA hornspyrnu sem Hallgrímur Mar Steingrímsson tók þegar um sex mínútur voru komnar fram yfir mínúturnar 90. Eftir klafs í teignum barst boltinn á markteiginn hægra megin þar sem Ívar Örn Árnason var eldsnöggur að hugsa, sveiflaði vinstri fæti og skoraði með föstu skoti út við stöng. Þá sýndi vallarklukkan 96 mín. og 11 sek. Ívar og félagar hans fögnuðu ógurlega og eftir að þeir grænu stilltu boltanum upp á miðjunni og tóku upphafsspyrnu blés Ívar Orri dómari í flautu sína til merkis um að leiktíminn væri liðinn. 

_ _ _

2:3 - VÍTI OG HÖSKULDUR SKORAR AFTUR
Á síðustu andartökum fyrir hluta framlengingarinnar fengu Blikar víti; Davíð Ingvarsson náði boltanum yst í vítateignum, Pætur Petersen var aðeins of seinn, sparkaði í Blikann og Ívar Orri dómari, sem var rétt hjá, dæmdi umsvifalaust brot á Færeyinginn. KA-menn mótmæltu en það hafði engin áhrif frekar en fyrri daginn. Höskuldur Gunnlaugsson, fyrirliði Breiðabliks, tók vítið og skoraði. Jajalo fór í rétt horn eins og svo oft í vítaspyrnum og var mjööög nálægt því að verja; hafði hönd á boltanum en það var ekki nóg.

_ _ _

3:3 - PÆTUR JAFNAR
Þegar Höskuldur kom Blikum yfir í annað sinn hafa án efa einhverjir talið baráttunni lokið, enn og aftur, en ævintýrið var sannarlega ekki á enda. Eftir laglegt spil varamannanna Ingimars Stöle og Andra Fannars Stefánssonar jafnaði Pætur Petersen með lúmskum skalla. Stöle (lengst til hægri fyrstu myndinni) fór illa með Alexander Helga Sigurðsson á hægri kantinum og sendi inn á markteig þar sem Pætur stakk sér á milli Viktors Arnar Margeirssonar og Damirs Muminovic og skallaði í fjærhornið.  

_ _ _

VÍTASPYRNUKEPPNI
Lokatölur eftir framlengingu 3:3 og því þurfti að grípa til vítaspyrnukeppni – sem lengi verður í minnum höfð, svo mikið er víst.

1. SPYRNA KA (3:3) – Elfar Árni Aðalsteinsson spyrnti í vinstra hornið en Anton Ari varði.

_ _ _

1. SPYRNA BREIÐABLIKS (3:4) – Höskuldur Gunnlaugsson kemur Blikum yfir með öðru víti sínu í leiknum.

_ _ _

2. SPYRNA KA (4:4) – Daníel Hafsteinsson jafnar metin. Sendi Anton Ara í vitlaust horn.

_ _ _ 

2. SPYRNA BREIÐABLIKS (4:4) – Gísli Eyjólfsson ákvað að skjóta á sama stað og þremenningarniar á undan honum en Jajalo markvörður las Blikann og varði örugglega. 

_ _ _ 

3. SPYRNA KA (4:4) – Hallgrímur Mar Steingrímsson skýtur hátt yfir markið.

_ _ _

3. SPYRNA BREIÐABLIKS (4:4) – Viktor Karl Einarsson skýtur líka hátt yfir markið.

_ _ _ 

4. SPYRNA KA (5:4) – Ívar Örn Árnason skorar af öryggi með skoti í mitt markið.

_ _ _

4. SPYRNA BREIÐABLIKS (5:4) – Klæmint Olsen beitti afli frekar en nákvæmni og þrumaði yfir markið.

_ _ _

5. SPYRNA KA (6:4) – Þar með var komið að ögurstundu og Spánverjinn yfirvegaði, Rodrigo Gomes Mateo, hafði betur í taugastríðinu við Anton Ara; Rodri sendi boltann í hægra hornið með hnitmiðuðu skoti en markvörðurinn kastaði sér í hina áttina.

_ _ _

SVO VAR AUÐVITAÐ FAGNAÐ VEL OG LENGI!