Fara í efni
KA

Mörk KA-manna á Dalvík – MYNDIR

KA-menn fögnuðu með tilþrifum eftir að Nökkvi Þeyr gerði sigurmarkið, ekki síður þjálfarar og varamenn en leikmenn eins og þarna má sjá! Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

KA vann dramatískan sigur á liði Keflavíkur, 3:2, á Dalvík í gærkvöldi, í þriðju umferð Bestu deildarinnar í knattspyrnu, efstu deildar Íslandsmótsins.

Gestirnir voru 2:1 yfir þegar fáeinar mínútur voru eftir en tvö mörk Dalvíkingsins Nökkva Þeys Þórissonar í blálokin tryggðu KA sigur og sæti við hlið Breiðabliks og Vals á toppi deildarinnar. Liðin þrjú hafa unnið alla leikina til þessa.

Að neðan eru myndir af mörkum KA í leiknum. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson ©

_ _ _

1:0 (42. mínúta) Nökkvi Þeyr sendi inn á vítateig frá vinstri, Daníel Hafsteinsson fékk boltann en náði ekki almennilega valdi á honum og boltinn hrökk af varnarmanni fyrir fætur Þorra Mar Þórissonar sem skoraði með hnitmiðuðu skoti úr miðjum vítateignum. Boltinn hafði viðkomu í varnarmanni og breytti um stefnu svo Sindri markvörður átti enga möguleika á að vera. En þar sem boltinn var á leið í átt að marki þegar varnarmaður snerti hann skráist markið á Þorra. Þetta er fyrsta mark hans í efstu deild.

_ _ _

2:2 (87. mín.) Eftir klafs fyrir utan vítateig Keflvíkinga hrökk boltinn af varnarmanni til Nökkva Þeys Þórissonar yst í teignum, Magnús Þór Magnússon sparkaði aftan í vinstri fót KA-mannsins og víti var dæmt. Nökkvi Þeyr tók vítið sjálfur og þrumaði undir Sindra markvörð.

_ _ _

3:2 (90. mín.) Þorri Mar var með boltann rétt framan við miðju hægra megin, sendi inn á vítateig þar sem Rodri skallaði til Nökkva Þeys sem var rétt utan vítateigs. Hann lék til hægri framhjá varnarmanni og sendi boltann í fjærhornið.