Fara í efni
KA

Mjög slæmt brot en ég hef séð það svartara

Sólin skein á ný í dag! Sandra María Jessen og dóttir hennar Ella Ylví Küster heima á lóð. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

„Ég fann strax rosalega mikinn verk, óttaðist að ég væri brotin og var svo alveg viss þegar ég leit á hendina. Hún var óeðlileg í laginu; skökk,  það var eins og trappa væri á hendinni,“ sagði Sandra María Jessen, landsliðskona í fótbolta, við Akureyri.net í dag. Hún meiddist í leik með Þór/KA, gegn Tindastóli í Bestu deildinni í gærkvöldi og næsta víst er að hún verður frá keppni í tvo mánuði.

Það var seint í fyrri hálfleik sem óhappið varð. „Þetta var mjög skrýtið og gerðist hratt. Það var klafs inni í teig, ég skaut á markið úr mjög þröngu færi, varnarmaður náði að fara fyrir skotið og boltinn skýst af henni beint aftur í mig. Það má eiginlega segja að ég hafi skotið sjálf í höndina á mér!“

Ljótt brot

„Ég dofnaði strax fram í fingurna, varð ískalt og fann að blóðflæðið fram í fingurna var ekki gott. Ég var svo kvalin að mér fannst tíminn þangað til sjúkrabíllinn kom rosalega langur að líða, þó að hann væri það örugglega ekki. Þegar hann kom fékk ég sterk verkjalyf og leið miklu betur. Strax og lyfin fóru að virka gat ég slakað á.“

Brotna höndin áður en hún var sett í gifs í gærkvöldi. Sandra birti þessa mynd á Instagram.

Sandra sagðist strax hafa vonað að brotið væri ekki slæmt, eins og hún orðar það; að það væri gott brot. Í ljós kom að önnur pípan í vinstri hendinni var brotin rétt við úlnliðinn. „Bæklunarlæknir á sjúkrahúsinu var kallaður út og strax og hann leit á höndina á mér sagðist hann 95% viss um að ég þyrfti í aðgerð, þetta væri það ljótt brot. Hann vildi samt sem áður færa beinin aðeins til, svo þau myndu liggja betur. Eftir það fór ég aftur í röntgenmyndatöku og læknirinn var í raun undrandi sjálfur hvað útkoman var góð.“

Margskonar tilfinningar

Sandra segir að nú sé talið líklegt að hún þurfi ekki í aðgerð en það kemur þó ekki endanlega í ljós fyrr en næsta miðvikudag. „Við höldum í vonina. Þá mæti ég í skoðun og myndatöku. Ef ég verð heppin slepp ég við aðgerð, ef ekki fer ég beint í aðgerð eftir þessa skoðun.“

Hvort sem Sandra þarf í aðgerð vegna brotsins eður ei verður hún frá í sex til átta vikur, því litlu muni á endurhæfingartímanum. „Ég verð því sjálfsagt frá í tvo mánuði. Ég get byrjað að hlaupa og hjóla fyrr og mögulega æft eitthvað með bolta,“ segir hún, en ekki æft þannig að hætta sé á mikilli snertingu.

Sandra María segir þessi meiðsli vekja upp margskonar tilfinningar. „Ég hef gengið í gegnum tvö krossbandaslit og barnsburð og alltaf komið sterkari til baka. Ég hef séð það mun svartara en þetta – og það koma aðrir bjartir dagar!“ segir hún ákveðin.

Smellið hér til að sjá myndasyrpuna frá því í gærkvöldi þegar Sandra meiddist.