Fara í efni
KA

„Mjög sáttur“ – KA rótburstaði Leikni

Nökkvi Þeyr Þórisson, sem hér skorar gegn Val fyrir skömmu, gerði tvö mörk á Leiknisvellinum í dag. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

KA-menn léku á als oddi í Reykjavík í dag og rótburstuðu Leiknismenn, 5:0, í efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu, Bestu deildinni.

Yfirburðir KA voru miklir, eins og tölurnar gefa til kynna, en sigurinn hefði þó getað orðið enn stærri!

Nökkvi Þeyr Þórisson braut ísinn á 23. mínútu og skoraði einnig fjórða markið. Hann hefur þar með gert níu mörk í 13 leikjum í deildinni í sumar.

Staðan var aðeins 2:0 í hálfleik en KA-menn hefðu getað skorað fleiri mörk þá. Það var svo á fimm mínútna kafla í seinni hálfleik sem þeir kláruðu dæmið og sérstaka athygli vakti fimmta og síðasta markið; Sveinn Margeir skoraði með frábæri skoti utan vítateigs.

  • 0:1 Nökkvi Þeyr Þórisson (23. mín.)
  • 0:2 Elfar Árni Aðalsteinsson (25.)
  • 0:3 Ásgeir Sigurgeirsson (57.)
  • 0:4 Nökkvi Þeyr Þórisson (59.)
  • 0:5 Sveinn Margeir Hauksson (61.) 

KA er áfram í þriðja sæti deildarinnar, er komið með 24 stig, fjórum minna en Íslands- og bikarmeistarar Víkings sem eru í öðru sæti.

„Ég er mjög sáttur, ég hef verið að bíða eftir svona frammistöðu þar sem við erum að finna hlaupin á bakvið, spila frábæran sóknarleik og auðvitað líka mjög góðan varnarleik,“ sagði Arnar Grétarsson, þjálfari KA, við fótbolta.net. Smellið hér til að lesa viðtalið og hér til að lesa umfjöllun fótbolta.net um leikinn.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna á vef KSÍ.