Fara í efni
KA

Mjög sannfærandi og kærkominn sigur

Una Móeiður Hlynsdóttir komin á blað! Sandra María Jessen, til vinstri, og Karen María Sigurgeirsdóttir (9) fagna ásamt Unu Móeiði eftir hún gaf tóninn í dag með fyrsta mark sínu í efstu deild – í fyrsta leik hennar í byrjunarliðinu í deildinni. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Þór/KA vann sannfærandi 3:0 sigur á liði Selfyssinga á Þórsvellinum í dag í áttundu umferð Bestu deildar kvenna, efstu deildar Íslandsmótsins í knattspyrnu. Sigurinn er sannarlega kærkominn eftir þrjú töp í röð.

Hin bráðefnilega Una Móeiður Hlynsdóttir var í fyrsta skipti í byrjunarliði Þórs/KA í Bestu deildinni og var ekki lengi að þakka traustið. Strax á 10. mínútu fékk hún boltann inn fyrir vörn Selfyssinga og skoraði af mikilli yfirvegun þótt hin þrautreynda fyrrverandi landsliðskona, Sif Atladóttir, andaði ofan í hálsmálið á henni. Una Móeiður, sem er aðeins 17 ára, sendi boltann undir Idun-Kristine Jörgensen markvörð, sem kom út á móti.

Sandra María Jessen, fyrirliði Þórs/KA kom liðinu í 2:0 aðeins fimm mínútum síðar með þrumuskoti af stuttu færi og það var Tahnai Annis sem gerði þriðja markið í seinni hálfleik með skalla eftir hornspyrnu.

Eftir sigurinn eru Stelpurnar okkar komnar með 12 stig úr átta leikjum og hoppa upp í fjórða sæti, upp fyrir Stjörnuna (11 stig) og FH (10) sem mætast á morgun.

Nánar í kvöld