Fara í efni
KA

Mjög öruggur sigur KA/Þórs á Haukum

Danska skyttan Ida Hoberg stóð sig vel í kvöld; gerði sjö mörk í og var sterk í vörn. Ida fékk högg á nefið í fyrri hálfleik og fór af velli en mætti síðan galvösk til seinni hálfleiksins. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

KA/Þór vann öruggan sigur á Haukum í kvöld, 32:28, í Olís deildinni, efstu deild Íslandsmótsins í handbolta. Stelpurnar okkar voru yfir frá upphafi til enda, munurinn var þrjú mörk þegar flautað var til leikhlés og varð mestur níu mörk í seinni hálfleik. Spennan var því engin þótt munurinn væri aðeins fjögur mörk í leikslok.

KA/Þór er áfram í fimmta sæti, hefur 12 stig að loknum 15 leikjum en Haukar eru með 10 stig eftir 16 leiki. Fram er með 19 stig í fjórða sætinu og varla raunhæft að ná því.

Sex lið komast í úrslitakeppnina; tvö efstu sitja hjá í fyrstu umferð en lið númer þrjú og sex mætast annars vegar, hins vegar liðin í fjórða og fimmta sæti.

Valur og ÍBV eru nú í tveimur efstu sætunum, Stjarnan í þriðja sæti og Fram í fjórða. Verði niðurstaðan þessi mætir KA/Þór liði Fram í sex liða úrslitum og komi til oddaleiks verður hann á heimavelli þess liðs sem endar ofar í deildinni.

Mörk KA/Þórs í kvöld: Nathalia Soares Baliana 9, Ida Hoberg 7, Rut Arnfjörð Jónsdóttir 5 (1 víti), Kristín A. Jóhannsdóttir 4, Júlía Sóley Björnsdóttir 3, Anna Þyrí Halldórsdóttir 2, Unnur Ómarsdóttir 2.

Varin skot: Matea Lonac 8 (25%), Sif Hallgrímsdóttir 1 (20%)

Smellið hér til að sjá alla tölfræði úr leiknum.