Fara í efni
KA

Mjög öruggur sigur Club Brugge á KA

Harley Willard, lengst til hægri, skoraði fyrir KA í Belgíu í dag. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

KA náði að skora gegn Club Brugge í Belgíu í dag en það dugði skammt því belgíska liðið gerði fimm mörk. Úrslitin því 5:1 í þessari fyrri viðureign liðanna í þriðju umferð forkeppni Sambandsdeildar Evrópu í knattspyrnu.

Liðin mætast aftur á Laugardalsvelli í næstu viku og nokkuð ljóst að KA-menn ljúka þátttöku í Evrópukeppninni að þessu sinni að kvöldi næsta fimmtudags. Þrátt fyrir það geta þeir gengið býsna stoltir frá borði, eftir að hafa slegið út lið frá Wales og Írlandi, og sannarlega reynslunni ríkari.

Belgarnir voru miklu betri eins og vitað var fyrirfram; Club Brugge er einfaldlega mun sterkara lið en KA.

Jorne Spileers kom Club Brugge í 1:0 eftir 10 mínútur með skoti utan teigs. Heimamenn voru síðan að mestu með boltann í fyrri hálfleik sem var þó ansi rólegur lengi vel. Undir lok hálfleiksins spýttu leikmenn belgíska liðsins svo í lófana og KA-menn vissu vart hvaðan á þá stóð veðrið í fáeinar mínútur á meðan staðan gjörbreyttist.

Hans Vanaken kom Club Brugge í 2:0 á 40. mín., Andreas Skov Olsen breytti stöðunni í 3:0 aðeins einni mínútu síðar og á síðustu mínútu hálfleiksins skoraði Igor Thiago úr víti. Staðan orðin 4:0 í hálfleik.

Þegar tæplega kortér var liðið af seinni hálfleik skipti Hallgrímur Jónasson þjálfari KA þremur leikmönnum inná; Jakob Snær Árnason, Harley Willard og Elfar Árni Aðalsteinsson komu af varamannabekknum í stað Andra Fannars Stefánssonar, Ásgeirs Sigurgeirssonar og Jóan Símun Edmundsson.

Breytingin var ekki lengi að skila sér! Um það bil þremur mínútum síðar – á 60. mínútu – hafði KA skorað og þar komu tveir varamannanna við sögu. Jakob Snær fékk boltann á vinstri kantinum og sendi inn á vítateig þar sem Willard var mættur og skoraði! 

Nokkrum mínútum síðar voru þeir félagar aftur á ferðinni. KA náði skyndisókn, Jakob lék með boltann fram undir vítateig og gaf til vinstri á Willard inni í teignum og hann sendi knöttinn aftur í netmöskvana, en markið var ekki talið með; Harley var illu heillu rangstæður þegar Jakob sendi knöttinn á hann.

Það var svo Roman Yaremchuk sem breytti stöðunni í 5:1 á 77. mínútu með föstu skoti úr vítateignum eftir fyrirgjöf.

Lýsing og tölfræði úr leiknum á vef UEFA