Fara í efni
KA

Miklir skotmenn við störf á KA-vellinum

Þórir Tryggvason ljósmyndari mundar skófluna og nýjasti leikmaður KA, framherjinn Viðar Örn Kjartansson, á æfingu samtímis. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Hópur sjálfboðaliða vann við það í gær að búa KA-svæðið eins vel og kostur er undir Bestu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu sem hefst um helgina. Fyrsti leikur KA er á sunnudaginn þegar HK úr Kópavogi kemur í heimsókn.

Á meðan KA-liðið æfði undir stjórn Hallgríms Jónassonar þjálfara unnu aðrir við að moka snjó og hengja upp auglýsingar. Gríðarlega mikið snjóaði á Akureyri um páskana eins og komið hefur fram í fréttum. Ekki er ofsagt að allt hafi farið á kaf. Hiti er undir gervigrasvelli KA-manna þannig að þegar búið var að skafa mesta snjóinn af honum í vikunni var restin fljót að bráðna, en utan vallarins þurfti hins vegar að taka til hendinni, bæði kringum grasflötina og í áhorfendastúkunni.

200 mörk og milljónir „skota“

Meðal þeirra sem Akureyri.net rakst á í gær var ljósmyndarinn Þórir Tryggvason sem sveiflaði skóflunni fagmannlega við annað markið. Þórir, sem hefur verið eins og grár köttur á flestum íþróttaviðburðum í bænum síðustu áratugi, vopnaður myndavélinni, gantaðist með það að hann vildi einkum og sérílagi tryggja að þurfa ekki að sitja rassblautur í snjónum á sunnudaginn!

Í leikmannahópi KA á æfingunni í gær var nýjasti meðlimurinn, Viðar Örn Kjartansson sem gekk til liðs við félagið á  dögunum. Selfyssingurinn er mikill markahrókur; hefur er góður skotmaður og hefur skorað liðlega 200 mörk á meistaraflokksferlinum, með félagsliðum hér heima og erlendis, í landsleikjum.

Viðar Örn verður væntanlega í eldlínunni á sunnudaginn og Þórir verður einnig á sínum stað. Skot hans með myndavélinni eru talin í milljónum í gegnum tíðina og þeirri skothríð er hvergi nærri lokið ...

Viðar Örn Kjartansson á æfingu hjá KA í gær. Í forgrunni er Ásgeir Sigurgeirsson fyrirliði liðsins.