Fara í efni
KA

Mikilvægur sigur í sveiflukenndum leik

Heimir Örn Árnason, sem kom inn í þjálfarateymi KA í vikunni, ræðir við Jónatan Magnússon. Sverre Andreas Jakobsson, starfsbróðir þeirra, lengst til vinstri. Ljósmynd: Þórir Tryggvason

KA sigraði Gróttu í KA-heimilinu í dag, 31:29, í efstu deild Íslandsmótsins í handbolta, Olís deildinni. Sigurinn var gríðarlega mikilvægur því KA hefur gengið illa og var aðeins með sex stig, einu minna en Grótta.

Eftir sigurinn er KA í níunda sæti með átta stig eftir 11 leiki. Grótta er sæti neðar með sjö stig eftir 10 leiki og Fram er næst fyrir ofan KA, með 10 stig að loknum 10 leikjum. Átta lið fara í úrslitakeppnina í vor.

Endasprettur leiksins var hnífjafn og spennandi sem er í raun með ólíkindum því KA-menn virtust ætla að ganga frá gestunum í upphafi, komust í 9:2 þegar fyrri hálfleikur var tæplega hálfnaður en á ótrúlegan hátt tókst Gróttumönnum að minnka muninn niður í þrjú mörk; staðan var 15:12 í hálfleik.

Sveiflurnar voru líka miklar í seinni hálfleik; KA komst sex mörkum yfir um miðjan hálfleikinn, 24:18, munurinn var kominn niður í eitt mark, 26:25, þegar rúmar fimm mín. voru eftir en KA hélt út og nældi í afar dýrmæt stig.

Óðinn Þór Ríkharðsson gerði 14 mörk í leiknum (úr 21 skoti), þar af 4 úr víti. Skemmtilegur leikmaður Óðinn; hann er ekki smeykur við að skjóta á markið aftur og aftur þótt honum bregðist bogalistin; er alltaf tilbúinn að taka af skarið á nýjan leik, ekki ósvipaður öðrum örvhentum hornamanni, landsliðskempunni Valdimar Grímssyni, Valsaranum sem lék með KA á sínum tíma! Ekki leiðum að líkjast!

Ólafur Gústafsson, Patrekur Stefánsson og Einar Rafn Eiðsson gerðu 4 mörk hver og Einar var sem fyrr með flestar stoðsendingar KA-manna; bjó til 11 færi að þessu sinni. Pætur Mikkjalsson gerði 3 mörk og þeir Jóhann Geir Sævarsson og Einar Birgir Stefánsson 1 hvor. Nicholas Satchwell varði 11 skot og Bruno Bernat 1.

Smellið hér til að sjá alla tölfræðina úr leiknum.

Smellið hér til að lesa ítarlega umfjöllun mbl.is

Smellið hér til að lesa ítarlega umfjöllun Vísis

Óðinn Þór Ríkharðsson í leiknum í dag. Ljósmynd: Þórir Tryggvason.