Fara í efni
KA

Mikið undir í dag hjá handboltaliðunum

Handboltalið bæjarins verða á ferðinni í dag og gríðarlega mikið er undir hjá þeim öllum. Stelpurnar okkar í KA/Þór eiga til dæmis mjög erfiðan leik gegn sterku liði Fram fyrir höndum á útivelli og eru í mikili baráttu um að halda sæti sínu í deild þeirra bestu. 
 
15.00 Þór - Fram U
Grill 66 deildin, leikið í Íþróttahöllinni á Akureyri.
 
Ungmennalið Fram er langefst í deildinni og er öruggt með efsta sætið. Ungmennalið geta ekki færst upp um deild en fjögur berjast um það. Af þeim eru Þórsarar nú í lakastri stöðu og leikurinn því afar mikilvægur. ÍR er með 22 stig, Fjölnir 21, Hörður 20 og Þór 18. Haldist þessi röð óbreytt fara ÍR-ingar beint upp en hin liðin þrjú bítast um annað sæti í efstu deild. Fjölnir sæti þá yfir í undanúrslitum og Þórsarar mæta Herði þar sem Ísfirðingar eiga oddaleik heima ef til þess kemur.
 

Leikir sem liðin eiga eftir:

Þór: Fram U (heima), Víkingur U (úti)
Hörður: Haukar U (ú), HK U (h)
Fjölnir: Valur U (h), KA U (ú)
ÍR: KA U (ú), Haukar U (h) 

17.30 KA - Víkingur
Olís deild karla. Leikið í KA-heimilinu.

KA er sem stendur í áttunda sæti með 14 stig, einu minna en Stjarnan en á leik til góða. Grótta er svo næst á eftir KA með 13 stig og er einnig búið að spila einum leik meira. Með sigri í dag fara KA-strákarnir því upp í sjöunda sæti en átta efstu komast í úrslitakeppnina sem kunnugt er. Víkingar eru í 20. sæti með 10 stig. Eftir leiki dagsins verða þrjár umferðir eftir, þar sem KA mætir Val heima en Aftureldingu og FH á útivelli. 

17.30 Fram - KA/Þór
Olís deild kvenna. Leikið í Framheimilinu í Úlfarsárdal. Viðureignin verður sýnd beint í Sjónvarpi Símans.
 
Það er síðasta umferð deildarinnar sem er á dagskrá í dag. KA/Þór er neðst með sjö stig, stigi á eftir Aftureldingu sem einnig á mjög erfiðan leik fyrir höndum gegn Val að Varmá í Mosfellsbæ. Fram er næst efst í deildinni og Valur á toppnum.
 
Fari svo að KA/Þór sigri í dag og Afturelding tapi enda Stelpurnar okkar í næst neðsta sæti og fara í umspil við liðin í 2.-.4. sæti í næst efstu deild, Grill66 deildinni, um sæti í efstu deild. Það á einnig við ef KA/Þór gerir jafntefli að því gefnu að Afturelding tapi því KA/Þór er með betri árangur í innbyrðis viðureignum gegn Afturelding í vetur. Tapi KA/Þór hins vegar í dag leikur liðið í næst efstu deild næsta vetur.