Fara í efni
KA

Meistaraþjálfararnir mætast á Þórsvellinum

Karen María Sigurgeirsdóttir, til hægri í leiknum gegn FH á dögunum, skoraði eina markið þegar Þór/KA og Tindastóll síðast á Íslandsmótinu. Til vinstri er Shaina Faiena Ashouri sem lék með Þór/KA sumarið 2021. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Þór/KA og Tindastóll frá Sauðárkróki mætast á Þórsvellinum í kvöld í Bestu deildinni, efstu deild Íslandsmót kvenna í knattspyrnu. Leikurinn, sem hefst klukkan 20.00, er liður í níundu umferð deildarinnar.

Svo skemmtilega vill til að þjálfararnir sem mætast í kvöld eru þeir sem stýrt hafa Þór/KA til Íslandsmeistaratitlanna tveggja sem liðið státar af; Jóhann Kristinn Gunnarsson, sem nú þjálfar Akureyrarliðið á ný, var við stjórnvölinn 2012, og Halldór Jón Sigurðsson – Donni – þjálfari Tindastóls, var með Þór/KA 2017.

Þessi fyrri Norðurlandsslagur sumarsins átti upphaflega að vera á Sauðárkróki, en skipt var á heimaleikjum og liðin mætast á Króknum sunnudaginn 27. ágúst.

Eftir átta umferðir er Þór/KA í fimmta sæti deildarinnar með 12 stig en Tindastóll er í áttunda sæti með átta stig. Liðið tapaði síðast 5:0 fyrir Val á útivelli en Þór/KA sigraði Selfoss örugglega 3:0 í síðustu umferð á heimavelli.

Þetta er í annað skipti sem Tindastóll leikur í efstu deild Íslandsmótsins og liðin hafa því mæst tvisvar á þeim vettvangi áður, sumarið 2021. Þór/KA hafði betur í fyrri leiknum á Sauðarkróki 2:1, eftir að heimamenn komust yfir. Það var framherjinn Sandra Nabweteme sem gerði bæði mörk Þórs/KA, það seinna á síðustu andartökum leiksins, á fjórðu mínútu uppbótartíma. Það var svo Karen María Sigurgeirsdóttir sem gerði eina markið þegar Þór/KA vann seinni leikinn 1:0 á Þórsvellinum.