Fara í efni
KA

Meistararnir tóku KA-menn í kennslustund

Arnór Ísak Haddsson, bráðefnilegur leikmaöur sem varð 19 ára í vikunni, var eitt örfárra ljósa í myrkrinu hjá KA í dag. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

KA-menn sáu aldrei til sólar þegar Íslandsmeistarar Vals sóttu þá heim í dag í Olís deildinni, efstu deild Íslandsmótsins í handbolta. Eftir að staðan í hálfleik var 16:8 bættu gestirnir í og gjörsigruðu heimamenn, 35:26.

Tölurnar segja nánast allt sem segja þarf um leikinn því Valsmenn voru betri á öllum sviðum. Fyrstu mínúturnar var allt með eðlilegum hætti, staðan var 2:2 þegar sjö mínútur voru liðnar en svo seig á ógæfuhliðina hjá heimamönnum.

Valsarar gerðu fjögur mörk í röð, komust í 6:2, en sá kafli var þó aðeins forsmekkurinn að skelfilegri frammistöðu heimamanna. Eftir að KA gerði fjórða markið á 12 mínútu breyttist staðan úr 7:4 í 15:4 fyrir Val á um það til 10 mínútum; Valsmenn gerðu átta mörk í röð.

KA-menn náðu að laga stöðuna lítillega fyrir lok fyrri hálfleiks en Valsmenn komu út í seinni hálfleikinn af sama krafti og þeir spiluðu þann fyrri. Munurinn varð mestur 13 mörk, laust fyrir miðjan hálfleikinn, og úrslitin löngu ráðin.

Sóknarleikur KA-manna var vægast sagt ósannfærandi en varnarleikur Valsmanna reyndar frábær og Björgvin Páll Gústavsson var í miklum ham í markinu.

Þeir KA-menn sem geta borið höfuðið þokkalega hátt eru ungu leikmennirnir, Arnór Ísak og Skarphéðinn Ívar, sem fengu að spreyta sig í seinni hálfleik og stóðu fyrir sínu, og stuðningsmennirnir sem hvöttu sína menn til dáða þótt löngu væri ljóst að baráttan væri töpuð. Aðrir verða að horfa í eigin barm og hugsa sinn gang.

Mörk KA: Óðinn Þór Ríkharðsson 8 (4 víti), Einar Rafn Eiðsson 5, Arnór Ísak Haddsson 4, Jóhann Geir Sævarsson 3, Skarphéðinn Ívar Einarsson 2, Einar Birgir Stefánsson 1, Haraldur Bolli Heimisson 1, Jón Heiðar Sigurðsson 1 og Ólafur Gústafsson 1.

Smellið hér til að sjá alla tölfræði leiksins.