Fara í efni
KA

Meistararnir fóru illa að ráði sínu

Rut Jónsdóttir og Anna Þyrí Halldórsdóttir í baráttu við Hildigunni Einarsdóttur í KA-heimilinu á dögunum. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Íslandsmeistarar KA/Þórs fóru illa að ráði sínu í kvöld þegar þeir töpuðu fyrir Val, 30:26, í þriðja leik liðanna í undanúrslitum Íslandsmótsins í handbolta í Reykjavík.

Uppskrift kvöldsins var ámóta og í fyrri leikjunum; Stelpurnar okkar náðu mjög öruggri forystu, en eins og í fyrri leiknum í Origohöll Vals seig á ógæfuhliðina þegar á leið og andstæðingurinn fagnaði sigri. KA/Þór komst í 7:1 í kvöld en í hálfleik munaði aðeins einu marki, staðan var 14:13 KA/Þór í vil.

Sóknarleikur KA/Þórs var gríðarlega góður fyrri hluta leiksins og vörnin frábær en það sem skipti sköpum í dag var frábær frammistaða Andreu Gunn­laugs­dóttur í marki Vals. Hún varði 18 skot en markmenn KA/Þórs aðeins fjögur.

Gangur leiksins í stórum dráttum:

  • Fyrri hálfleikur 1:7 (eftir átta mínútur), 3:8, 5:9, 8:10, 13:14
  • Seinni hálfleikur: 14:18 (36 mín.), 21:21 (44 mín.), 22:21 (46. mín. - Valur yfir í fyrsta skipti), 28:23 (56 mín.), 29:24 (56 mín.), 30:26

Mörk KA/Þórs: Unnur Ómarsdóttir 5, Rut Jónsdóttir 5, Hulda Bryndís Tryggvadóttir 4, Martha Hermannsdóttir 4 (1 víti), Rakel Sara Elvarsdóttir 3, Aldís Ásta Heimisdóttir 3, Ásdís Guðmundsdóttir 1, Anna Þyrí Halldórsdóttir 1.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna.

Liðin mætast næst í KA-heimilinu klukkan 15.00. Þá er að duga eða drepast fyrir KA/Þór því tapi liðið leiknum fer Valur í úrslit. Vert er að hvetja sem allra flesta til að mæta og styðja við bakið á stelpunum. Þær eiga það svo sannarlega skilið. Upplagt að kjósa tímanlega og drífa sig svo í KA-heimilið, eða fara fyrst á leikinn og svo á kjörstað! 

Fram tryggði sér sæti í úrslitarimmunni í kvöld með sigri á ÍBV í Framheimilinu, 27:24. Fram vann einvígið 3:0.