Fara í efni
KA

Meistararnir búa sig undir Evrópuleikinn

Leikmenn KA/Þórs og þjálfarar á æfingu í Istogu í morgun. Ljósmyndir: Elvar Jónsteinsson.

Íslands- og bikarmeistarar KA/Þórs í handbolta æfðu í morgun í keppnishöllinni í Istog, þar sem Stelpurnar okkar mæta liði heimamanna í Evrópukeppninni á morgun og laugardag. 

Kósóvómeistararnir KHF Istogu hafa borið höfuð og herðar yfir önnur lið landsins undanfarið og verður spennandi að fylgjast með viðureign liðanna – frumraun íslensku meistaranna í Evrópukeppni. 

Að sögn Elvars Jónsteinssonar, sem er með í för, gengur allt eins og í sögu. Allir eru hressir eftir góðan nætursvefn í kjölfar sólarhrings ferðalags frá Akureyri í gær. Móttökur eru framúrskarandi og allur viðgjörningur til sóma.

Eftir fund þar sem Andri Snær Stefánsson, þjálfari, fór vel yfir leik mótherjanna rölti hópurinn á æfingu, en höllin er í aðeins fimm mínútna göngufjarlægð frá hóteli liðsins.

Elvar tók meðfylgjandi myndir í morgun.

Fundur á hótelinu fyrir æfinguna í morgun.

Martha Hermannsdóttir, fyrirliði KA/Þórs, á æfingunni í morgun.

Siguróli Sigurðsson fararstjóri og Hildur Lilja Jónsdóttir.