Fara í efni
KA

Öruggt hjá KA/Þór gegn HK í Kópavogi

Rakel Sara Elvarsdóttir, til vinstri, var valin í landsliðið í vikunni og hélt upp á það í kvöld með átta mörkum í Kópavogi. Unnur Ómarsdóttir, sem einnig er í landsliðinu, gerði sex mörk. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Íslandsmeistarar KA/Þórs í handbolta eru aðeins einu stigi á eftir Val, sem er í öðru sæti Olís deildar Íslandsmótsins, eftir 31:27 sigur á HK í Kópavogi í kvöld. Stelpurnar okkar eiga meira að segja einn leik inni á Val og færu í annað sætið með sigri í honum – gegn ÍBV í Eyjum. Fram er efst með 23 stig úr 14 leikjum.

KA/Þór lagði grunninn að býsna öruggum sigri snemma leiks. Liðið komst mest níu mörkum yfir í fyrri hálfleik, 20:11, en staðan í hálfleik var 20:14. Heimaliðið nálgaðist gesti sínu eftir hlé en ógnaði aldrei sigrinum.

Mörk KA/Þórs: Rakel Sara Elvarsdóttir 8, Rut Arnfjörð Jónsdóttir 6, Martha Hermannsdóttir 6 (5 víti), Unnur Ómarsdóttir 6, Ásdís Guðmundsdóttir 3, Hildur Lija Jónsdóttir 1, Kristín Aðalheiður Jóhannsdóttir 1.

  • Leik KA og ÍBV í Olís deild Íslandsmóts karla í handbolta, sem átti að fara fram í KA-heimilinu í kvöld, var frestað vegna veðurs. Hann fer fram á morgun, fimmtudag, og hefst klukkan 17.30.