Fara í efni
KA

Meistarar KA/Þórs flugu í undanúrslitin

Leikmenn KA/Þórs fögnuðu duglega eftir að sæti í undanúrslitunum var í höfn í kvöld. Katrín Vilhjálmsdóttir, fyrir miðri mynd, var í hlutverki „konsertmeistara“ að leikslokum. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Íslands- og bikarmeistarar KA/Þórs eru komnir í fjögurra liða úrslit bikarkeppninnar í handbolta. Stelpurnar okkar sigruðu lið HK mjög auðveldlega, 30:20, í átta liða úrslitunum í KA-heimilinu í kvöld og eru þar með komnar í undanúrslit þriðja árið í röð.

Leikurinn fór rólega af stað en KA/Þór hafði alltaf frumkvæðið og staðan var 15:11 í hálfleik. Bikarmeistararnir léku þó ekki sérlega vel en spýttu hins vegar í lófana í seinni hálfleik. Gestirnir gerðu að vísu tvö fyrstu mörkin eftir hlé en síðan jókst munurinn jafnt og þátt þar til staðan var orðin 26:15 þegar tæplega kortér var eftir.

Matea Lonac hóf leikinn í marki KA/Þórs að vanda og lék vel þar til hún fékk skot í höfuðið um miðjan fyrir hálfleikinn og kom ekki meira við sögu. Sunna Guðrún Pét­urs­dótt­ir leysti hana af og stóð sig mjög vel. Flestar skiluðu sínu vel þegar á heildina er litið; reiknað var með öruggum sigri meistaranna og þótt töluvert hafi verið liðið á leikinn þegar leiðir skildu þarf ekki að kvarta undan neinu. Reyndustu leikmenn liðsins fengu svo að setjast og hvíla sig drjúga stund á meðan yngri og óreyndari stelpur spreyttu sig. Allir græða á því!

Mörk KA/Þórs: Rakel Sara Elvarsdóttir 7, Rut Arnfjörð Jónsdóttir 5, Aldís Ásta Heimisdóttir 5, Martha Hermannsdóttir 4 (allt víti), Unnur Ómarsdóttir 3, Ásdís Guðmundsdóttir 2, Anna Marý Jónsdóttir 1 Kristín Aðalheiður Jóhannsdóttir 1, Anna Þyrí Halldórsdóttir 1 og Hulda Bryndís Tryggvadóttir 1.

Varin skot: Matea Lonac 6, Sunna Guðrún Pétursdóttir 12 (2 víti).

Fyrr í dag tryggði karlalið KA sér sæti í undanúrslitum og karlalið Þórs er enn í keppninni; Þórsarar mæta líklega FH-ingum í átta liða úrslitunum, en Hafnarfjarðarliðið á eftir að leika við Hörð á Ísafirði.

Fjögur lið, hin fjögur fræknu, komast í bikarúrslitahelgi, þar sem undanúrslit í kvennakeppninni fara fram miðvikudaginn 9. mars, undanúrslit karla daginn eftir og báðir úrslitaleikirnir laugardaginn 12. mars.