Fara í efni
KA

Meirihluti KA-manna smitaðist í Búdapest

Handboltalið KA í Búdapest, þar sem það var í æfingaferð og fylgdist með EM. Myndin birtist á Facebook síðu KA.

Meistaraflokkur karla í handbolta hjá KA fór í æfingaferð til Ungverjalands á dögunum og fylgdist með öllum þremur leikjum Íslands í riðlakeppni EM í Búdapest. Alls var 21 í hópnum, leikmenn, þjálfarar og fararstjórar og við komuna til landsins reyndist meirihluti hópsins smitaður af kórónuveirunni.

Enginn hefur þó veikst að einhverju ráði; nokkrir eru með væg einkenni en meirihlutinn er einkennalaus skv. upplýsingum sem Akureyri.net aflaði í dag. KA-menn komu til landsins á fimmtudaginn. Á landamærunum reyndust 13 smitaðir, einn fékk óljósa niðurstöðu, fjórir reyndust neikvæðir og þrír höfðu áður smitast.

Ferðin gekk að öðru leyti mjög vel að sögn KA-manns sem rætt var við í dag. Liðið spilaði tvo æfingaleiki við sterk ungversk atvinnumannalið, þeir töpuðust reyndar báðir en æfingar gengu mjög vel. Þá sagði hann það mikla upplifun að hafa fylgst með öllum leikjum riðlakeppninnar í Búdapest.

Fyrsti leikur KA á Íslandsmótinu eftir EM er ekki fyrr en 5. febrúar, þegar ÍBV kemur í heimsókn.

Arnór Ísak Haddsson og Ragnar Snær Njálsson í æfingaleik í Búdapest á dögunum.