Fara í efni
KA

Matea Lonac áfram hjá KA/Þór

Matea Lonac hefur reynst KA/Þór einstaklega drjúg í markinu. Mynd: ka.is.

Markvörðurinn Matea Lonac hefur skrifað undir nýjan tveggja ára samning við handknattleikslið KA/Þórs og mun því leika með liðinu að minnsta kosti til vorsins 2025.

Greint er frá undirskrift Mateu á heimasíðu KA í dag, en þar segir:

Matea Lonac skrifaði í dag undir nýjan tveggja ára samning við KA/Þór og er nú samningsbundin liðinu út tímabilið 2024-2025. Þetta eru algjörlega frábærar fréttir enda hefur Matea verið einn allra besti markvörður Olísdeildarinnar undanfarin ár og var valin besti leikmaður KA/Þórs á nýliðnum vetri.

Matea gekk í raðir KA/Þórs fyrir tímabilið 2019-2020 og hefur hún í kjölfarið verið með bestu markvörðum landsins. Matea fór hamförum veturinn 2020-2021 er KA/Þór hampaði Íslandsmeistaratitlinum, Bikarmeistaratitlinum, Deildarmeistaratitlinum auk þess að verða Meistari Meistaranna og var þá með bestu markvörsluna í deildinni.

Á nýliðnum vetri var Matea valin besti leikmaður KA/Þórs en hún var með 33,3% markvörslu á tímabilinu. Það er gríðarlega sterkt að halda Mateu áfram innan okkar raða en auk þess að vera mögnuð innan vallar er hún gríðarlega sterkur karakter sem hefur komið frábærlega inn í starf félagsins.