Fara í efni
KA

Markasúpa dagsins og KA fagnaði sigri

Hallgrímur Mar Steingrímsson var áberandi á Keflavíkurvelli í kvöld og kórónaði frammistöðuna með frábæru sigurmarki. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

KA-menn fögnuðu 4:3 sigri á botnliði Keflavíkur í fjörugum leik í Bestu deildinni í knattspyrnu í kvöld. Eftir sigurinn í Bítlabænum er KA komið upp í sjötta sæti með 20 stig úr 15 leikjum.

KA fékk tvö prýðileg færi snemma leiks en heimamenn gerðu fyrsta markið eftir stundarfjórðung, Sindri Þór Guðmundsson var þar að verki, og Keflvíkingar voru sterkari í kjölfarið. Bjarni Aðalsteinsson sá hins vegar til þess að KA var með forystuna þegar flautað var til leikhlés; hann jafnaði á 43. mínútu af stuttu færi eftir darraðardans í teignum í kjölfar hornspyrnu Hallgríms Mar og skoraði aftur á síðustu andartökum hálfleiksins. Skallaði boltann í netið, einnig eftir horn Hallgríms.

Viktor Andri Hafþórsson jafnaði fyrir Keflavík þegar 15 mín. voru liðnar af seinni háfleik en Svein Margeir Hauksson kom KA yfir á ný skömmu síðar eftir laglega sendingu Hallgríms - sem þar með hafði átt þátt í öllum þremur KA-mörkunum. 

Keflvíkingar jöfnuðu aftur þegar Ásgeir Páll Magnússon skoraði með föstu, hnitmiðuðu skoti frá vítateig á 72. mín. en varla var liðin nema mínúta frá þeirri gleðistund heimamanna þegar margnefndur Hallgrímur Mar kórónaði glæsilega frammistöðu sína með frábæru marki. Sveinn Margeir sendi boltann frá hægri út að vítateigslínu og Hallgrímur þrumaði viðstöðulaust að marki, boltann small í þverslánni og skaust þaðan í netið. Það reyndist sigurmarkið og vel var við hæfi að Húsvíkingurinn magnaði skoraði.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna