Fara í efni
KA

Markalaust og lítil tilþrif gegn Fylki

Sólin skein skært á Akureyri í dag eins og hér má sjá, en liðin buðu hins vegar ekki upp á skínandi leik. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Þór/KA og Fylkir gerðu markalaust jafntefli í afar tilþrifalitlum leik í Pepsi Max deild kvenna í knattspyrnu, efstu deild Íslandsmótsins, á Þórsvellinum (Salt Pay vellinum) í kvöld.

Mikið var í húfi í harðri botnbaráttu en eitt stig gerir afskaplega lítið fyrir liðin. Þór/KA er áfram í næst neðsta sæti, hefur átta stig eftir átta leiki, og Fylkir er sæti ofar með níu stig. Tindastóll er í neðsta sæti með fjögur stig úr sjö leikjum og mætir liði Selfoss á morgun.

Þetta stóð upp úr:

  • Veðrið var frábært á Akureyri, hiti yfir 20 stigum meðan leikurinn fór fram en sem betur fer var vindur úr suðri til að kæla mannskapinn aðeins niður.
  • Harpa Jóhannsdóttir, markvörður Þórs/KA, tognaði á ökkla í upphitun og Sara Mjöll Jóhannsdóttir kom inn í byrjunarliðið.
  • 5. flokkur stúlkna í KA, TM-meistari í Vestmannaeyjum á dögunum, stóð heiðursvörð þegar liðin gengu inn á völlinn.
  • Þór/KA var nær því að skora en skapaði þó ekki oft verulega hættu við mark gestanna. Sóknir lofuðu reyndar nokkrum sinnum góðu, en enduðu oftast með afleitum fyrirgjöfum eða skotum.
  • Allir þrír útlendingarnir hjá Þór/KA byrjuðu á varamannabekknum. Coleen Kennedy kom inn á eftir 68 mínútur og Sandra Nabweteme þegar 90 mínútur voru komnar á klukkuna. Miranda Smith hitaði ekki einu sinni upp.
  • Eftir horn á lokaandartökum leiksins skallaði Arna Sif Ásgrímsdóttir í varnarmann, boltinn fór þaðan í þverslá og yfir.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna.