Fara í efni
KA

María Catharina til Celtic í Glasgow

María Catharina Ólafsdóttir Gros í leik með Þór/KA. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

María Catharina Ólafsdóttir Gros, 18 ára leikmaður Þórs/KA í knattspyrnu, er gengin til liðs við skoska félagið Glasgow Celtic. Hún er farin utan,  skrifar á morgun undir tveggja ára samning en verður í leikmannahópnum í æfingaleik í kvöld.

Celtic varð í öðru sæti í skosku deildinni í vor á eftir Örnu Sif Ásgrímsdóttur og félögum í Glasgow City. Arna Sif, fyrirliði Þórs/KA, lék hálft tímabilið sem lánsmaður með liðinu. Bæði Glasgow City og Celtic taka þátt í Meistaradeild Evrópu í vetur.

María Catharina á að baki 38 leiki með Þór/KA í efstu deild Íslandsmótsins og hefur gert fjögur mörk. Þá hefur hún spilað tvo leiki í bikarkeppni KSÍ með liðinu og tvo í Meistarakeppni KSÍ, auk þriggja leika með Hömrunum í C-deild Íslandsmótsins.

Framherjinn ungi kom fyrst við sögu meistaraflokks Þórs/KA sumarið 2018, aðeins 15 ára gömul. Kom þá nokkrum sinnum inn á sem varamaður. Fyrsti leikur hennar í byrjunarliði á Íslandsmótinu var gegn Fylki í Reykjavík 23. júlí 2019 og fyrsta markið gerði hún sama sumar; fjórða mark Þórs/KA í 5:1 sigri gegn ÍBV á Þórsvellinum.

María Catharina á að baki 24 landsleiki, 11 með U-16 og 13 með U-17 og hefur gert alls þrjú mörk.

Fyrsta mark Maríu Catharinu fyrir Þór/KA; fjórða mark liðsins í 5:1 sigri á ÍBV á Íslandsmótinu, á Þórsvellinum 27. júlí 2019. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.