Fara í efni
KA

María Catharina lagði upp mark í sigri

María Catharina Ólafsdóttir Gros var í byrjunarliði Celtic í gærkvöldi þegar liðið vann Hearts 3:0 á útivelli í skosku úrvalsdeildinni í fótbolta.

„Ég var mjög ánægð með fyrri hálfleikinn hjá okkur, við náðum að skora þrjú mikilvæg mörk og ég er ánægð að hafa verið með stoðsendingu,“ sagði María Catharina við Akureyri.net, en hún lagði upp eitt markið. „Við héldum boltanum mjög vel eiginlega allan fyrri hálfleikinn, sá seinni var ekki alveg jafn góður en Hearts náði samt ekki að komast í nein almennileg færi.“

María var ánægð með stigin þrjú og segir leikmenn staðráðna í að vera í titilbaráttunni í vetur. Öll lið hafa lokið sjö leikjum, Rangers er efst með 19 stig en meistarar Glasgow City og Celtic eru bæði með 17.

María, sem er aðeins 18 ára, gekk til liðs við Celtic í sumar frá Þór/KA og er sæl í Skotlandi. „Ég er mjög ánægð með að hafa tekið þá ákvörðum að fara út. Mér líður mjög vel hérna og það hefur verið létt að aðlagast öllu. Við erum með mjög gott lið svo maður þarf að nýta öll tækifæri þegar maður fær spila til að sýna sitt besta,“ sagði hún.