Fara í efni
KA

Magnaður leikur og mikilvægt skref

Leikmenn KA/Þórs fagna innilega eftir sigurinn í kvöld. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

KA/Þór sigraði Val 24:21 í stórskemmtilegum fyrsta úrslitaleik liðanna um Íslandsmeistaratitil kvenna í handbolta, í KA-heimilinu í kvöld. Mikill hraði var í leiknum, töluvert um mistök á báða bóga eins og gengur, flottar sóknir oft og tíðum, en frábærar varnir á köflum og mögnuð markvarsla einkenndu viðureignina. 

Stelpurnar okkar í KA/Þór stigu flott skref með sigrinum; en bara skref. Næsti leikur í Valsheimilinu á sunnudaginn verður án nokkurs vafa mikill slagur, en komi til þriðja leiks verður hann í KA-heimilinu eftir viku. Tvo sigra þarf til að verða Íslandsmeistari og sannnarlega ástæða til þess að hvetja sem flesta til að útvega sér miða á næsta leik og hvetja Akureyrarliðið til dáða. Stelpurnar hafa skemmt áhorfendum gríðarlega í vetur og eiga allan mögulegan stuðning skilið.

Valsmenn voru yfirleitt skrefi á undan í fyrri hálfleik í kvöld, munurinn varð þó aldrei meiri en tvö mörk og staðan jöfn, 10:10, í hálfleik. Aldís Ásta Heimisdóttir, sem lék gríðarlega vel bæði í sókn og vörn, gerði fyrsta mark seinni hálfleiks og kom KA/Þór þar með yfir í fyrsta skipti. Rakel Sara, sá eldfljóti og flinki hornamaður, kom liðinu svo í 12:10 úr horninu en eftir það var allt í járnum í langan tíma. Valsarar komust síðan tveimur mörkum yfir um miðjan seinni hálfleik, en fljótlega eftir að Andri Snær þjálfari tók leikhlé í stöðunni 16:14 fyrir Val kom frábær kafli hjá Stelpunum okkar, sem gerðu fimm mörk í röð – breyttu stöðunni úr 15:17 í 20:17 – á sjö mínútum. Andri breytti sóknarleiknum á þann veg að stelpurnar voru sjö í hverri sókn en Matea markvörður fór af velli og það bragð heppnaðist heldur betur vel. Þær slökuðu ekki á klónni eftir það og unnu þriggja marka sigur. Aldís Ásta gerði síðasta markið af miklu harðfylgi á lokasekúndunum.

Marta Hermannsdóttir, fyrirliði KA/Þórs, sem lék stórt hlutverk í vörninni, fékk þriðju brottvísunina þegar rúmlega 20 mínútur voru eftir og staðan 13:13; tók þar með ekki frekari þátt í leiknum en þær yngri fylltu skarðið og sýndu úr hverju þær eru gerðar. 

Vörn KA/Þórs var mjög öflug lengstum, hið sama má reyndar segja um þá hlið mála hjá Val, og markverðirnir beggja liða gerðu vel. Sóknarleikur KA/Þórs var býsna hægur en leikmenn liðsins náðu þó oft að ljúka sóknum með skoti. Þolinmæði er vissulega stundum dyggð, og skynsemin ekki síður mikilvæg gegn liði eins og Val sem er fljótt að refsa með hraðri sókn ef andstæðingurinn  Valsstelpurnar bjóða líka yfirleitt upp á hraðari sóknarleik, með Lovísu Thompsen í broddi fylkingar; frábær leikmaður þar á ferð og hreinlega óviðráðanleg á köflum. Lovísa er svo snögg að afar erfitt er að ráða við hana þegar hún er í ham.

Sigur KA/Þórs á mjög öflugu Valsliði var frábær og gaman verður að fylgjast með rimmunni í Valsheimilinu á sunnudaginn. 

Smelltu hér til að sjá alla tölfræðina úr leiknum

Aldís Ásta Heimisdóttir gerir síðasta mark leiksins - 24. mark KA/Þórs - fáeinum sekúndum fyrir leikslok. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.