Fara í efni
KA

Langþráð sigurmark úr víti í blálokin!

Nökkvi Þeyr Þórisson gerði sigurmarkið í kvöld og hefur þar með skoraði fjögur mörk í fimm leikjum í deildinni í sumar. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

KA-menn eru komnir með 13 stig eftir fimm leiki í Bestu deildinni í knattspyrnu eftir 1:0 sigur á FH á Dalvík í kvöld. KA er í 2.-3. sæti ásamt Val en Breiðablik er á toppnum með 15 stig – hefur unnið alla leikina til þessa.

Boðið var upp á töluverða dramatík á Dalvík í kvöld. Sigur KA var mjög sanngjarn; fjórum sinnum small boltinn í stöng eða þverslá FH-marksins eftir skot eða skalla KA-manns en svo virtist sem þeir yrðu að gera sér markalaust jafntefli og aðeins eitt stig að góðu.

Þessi upptalning er í raun með ólíkindum:

  • 27. mínúta – Hallgrímur Mar sendi á Nökkva Þey sem var hægra megin í vítateignum, Nökkvi þrumaði boltanum í þverslá og niður.
  • 47. mínúta – Nökkvi Þeyr komst í gott færi en skaut í innanverða stöngina og út.
  • 73. mínúta – Vinstri bakvörðurinn Bryan Van Den Bogaert var nálægt því að gera eitt af mörkum ársins! Hann skaut rétt utan vinstra vítateigshorns, boltinn stefndi efst upp í hornið fjær en small í þverslánni!
  • 83. mínúta – Ívar Örn Árnason skallaði í þverslá eftir hornspyrnu, þaðan hrökk boltinn til hliðar þar sem Dusan Brkovic var í dauðafæri en FH-ingur náði  á ótrúlegan hátt að koma í veg fyrir að boltinn færi í markið.

Um það bil tvær mínútur voru liðnar af fjögurra mínútna uppbótartíma þegar loksins, loksins rættist úr. Varnarmaður FH þrumaði klaufalega í Nökkva Þey Þórisson í vítateignum og dómarinn, sem stóð rétt hjá, var ekki í vafa. Benti þegar í stað á vítapunktinn. Nökkvi Þeyr, sem gerði tvö mörk í sigrinum á Keflavík á dögunum, tók vítið sjálfur og skoraði örugglega. Þrjú dýrmæt stig voru þar með í höfn.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna