Fara í efni
KA

Komnar á stall og væntingar gerðar

Jóhann Kristinn Gunnarsson, þjálfari Þórs/KA, birti í dag kröftugan pistil á heimasíðu félagsins. Mynd: Auðunn Níelsson.

Jóhann Kristinn Gunnarsson, þjálfari Þórs/KA, skrifar áhugaverðan pistil á heimasíðu félagsins, thorka.is, sem birtur var fyrr í dag.

Í pistlinum fer hann yfir stöðu mála, árangur liðsins það sem af er sumri og kemur auðvitað einnig inn á leik liðsins gegn ÍBV í gær.

Jóhann fer meðal annars yfir að nokkur minni markmið sumarsins hafi þegar náðst, þ.e. að gera betur en í fyrra á nokkrum sviðum. Til dæmis hafi liðið haldið markinu oftar hreinu, unnið fleiri útileiki og liðið hafi fleiri stig núna en eftir allt tímabilið í fyrra. Hann hefur sagt áður og segir enn að stóra markmiðið sé að vera í efri hlutanum þegar deildinni verður tvískipt fyrir lokasprettinn í haust.

Komnar á ákveðinn stall

„Eins er gleðilegt fyrir okkur í Þór/KA að liðið okkar sé komið á þann stall að væntingarnar eru það miklar að öll töp eru „óvænt“ eða „vonbrigði“ eins og að „dragast aftur úr í toppbaráttunni“. Það sýnir okkur að stelpurnar hafa unnið sér inn þá virðingu og sess í deildinni að liðið er klárlega orðið eitt af þeim liðum sem ber að taka alvarlega," skrifar Jóhann meðal annars.


Jóhann Kristinn Gunnarsson og Sandra María Jessen fyrirliði ráða ráðum sínum í leik gegn Selfyssingum. Mynd: Þórir Tryggva.

Í lokin kallar Jóhann eftir samstöðu og stuðningi því það kosti mikla vinnu innan sem utan vallar að reka lið í fremstu röð. „Það er von mín og okkar allra sem standa að liðinu að stuðningsfólkið okkar standi þétt við bakið á okkur í seinni hluta mótsins. Það hefur alltaf jákvæð áhrif að finna fyrir stuðningi fólksins okkar. Stelpurnar leggja gríðarlega mikið á sig innan og utan vallar svo liðið geti tekið framförum og komist hærra. Það er staðföst trú okkar að við getum komið liðinu upp á meðal þeirra bestu. Við erum ekki svo langt frá því. En það kostar mikla vinnu allra. Að ná upp stöðugleika sem stærstu lið deildarinnar hafa umfram okkur er ekki eitthvað sem hægt er að ná fram á einum degi. Það þurfa allir að leggjast á árarnar. Stuðningsfólk, stuðningsaðilar, sjálfboðaliðar, stjórn og stjórnir félaganna hér á Akureyri, þjálfarar og leikmenn. Það er einlæg von mín að allir þessir aðilar fylki sér að baki Þór/KA fyrir seinni hluta mótsins,“ skrifar Jóhann, og endar á eftirfarandi: 

„Þessi barátta kvennaliðsins okkar hér á Akureyri í efstu deild Íslandsmótsins ætti að skipta okkur öll máli. Kemur okkur öllum við og það ætti að vera keppikefli okkar allra að hún gangi sem best fyrir liðið. Fyrir kvennaknattspyrnu á Akureyri. Fyrir fótboltann hér á Akureyri!“

Pistilinn í heild má finn hér: