Fara í efni
KA

Klaufagangur og Keflavík vann – MYNDIR

Sandra María Jessen, fyrirliði Þórs/KA hefur byrjað af krafti í Bestu deildinni; hún gerði mark liðsins í dag og hefur þar með skorað í báðum leikjum Íslandsmótsins. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Þór/KA tapaði 2:1 í dag fyrir Keflavík í annari umferð Bestu deildar kvenna, efstu deildar Íslandsmótsins í knattspyrnu, í köldu veðri á Greifavelli KA. Sandra María Jessen gerði mark Þórs/KA –  annað mark hennar í jafn mörgum leikjum í deildinni, en leikur liðsins olli vonbrigðum eftir góða frammistöðu í fyrstu umferðinni.

_ _ _ 

GLÆSILEGT MARK EN RANGSTAÐA
Heimakonur í Þór/KA byrjuðu leikinn betur og voru yfir á flestum sviðum leiksins. Hvorugu liðinu gekk þó að skapa sér hættuleg færi. Hulda Björg Hannesdóttir kom boltanum í netið á 21. mínútu með skalla eftir fyrirgjöf frá Ísfold Marý Sigtryggsdóttur en Hulda var rangstæð og staðan því enn markalaus.

_ _ _ 

KEFLVÍKINGAR TAKA FORYSTU
Fyrsta mark leiksins kom á 31. mínútu og voru það gestirnir úr Keflavík sem gerðu það. Heimakonur misstu boltann klaufalega á miðjunni, boltinn barst út á kant og þaðan inn í teig þar sem Linli Tu kom sér fram fyrir Dominique Jaylin Randle, varnarmann Þórs/KA og skoraði. Keflvíkingar voru svo nálægt því að bæta við öðru marki undir lok hálfleiksins en fyrirgjöf sem fór af Huldu Björgu og hafði sigrað Melissu í markinu fór í stöngina. Staðan var því 1:0 gestunum í vil þegar flautað var til hálfleiks.

_ _ _ 

SANDRA MARÍA JAFNAR
Seinni hálfleikur var aðeins 36 sekúndna gamall þegar Sandra María Jessen jafnaði metin fyrir Þór/KA. Amalía Árnadóttir átti þá góða sendingu yfir vörn gestanna þar sem Sandra María náði boltanum og skoraði með föstu skoti.

_ _ _ 

AFTUR KLAUFAGANGUR OG MARK
Keflvíkingar náðu aftur forystunni á 56. mínútu og aftur var það eftir klaufagang í vörn Þórs/KA. Léleg hreinsun úr vörninni beint á Dröfn Einarsdóttur sem renndi boltanum fyrir markið á Söndru Voitane sem gat ekki annað en skorað.

_ _ _

GLÆSILEG MARKVARSLA
Stelpurnar okkar í Þór/KA reyndu hvað þær gátu til að jafna eftir þetta en sóknarleikurinn gekk brösuglega. Krista Dís Kristinsdóttir átti þó góða tilraun á 56. mín.; mjög gott skot með vinstra fæti sem stefndi í hornið fjær en Vera Varis, markmaður Keflavíkur, varði frábærlega. Þór/KA fékk því hornspyrnu og eftir hana bjargaði varnarmaður Keflavíkur á línu.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna