Fara í efni
KA

Kjarngott veganesti til Írlands – MYNDIR

Ásgeir Sigurgeirsson, fyrirliði KA, í baráttu við einn Írann í kvöld. Daníel Hafsteinsson og Sveinn Margeir Hauksson horfa til himins í stað þess að beina sjónum sínum að þessum furðulega dansi. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

KA vann sannfærandi 3:1 sigur á írska liðinu Dundalk í fyrri viðureign liðanna í 2. umferð forkeppni Sambandsdeildar Evrópu í knattspyrnu í kvöld. Liðin mættust á Framvellinum í Reykjavík og eigast við á ný ytra eftir viku. Nái KA-strákarnir að komast áfram í keppninni mæta þeir mjög líklega Club Brugge frá Belgíu sem vann fyrri leikinn við AGF frá Danmörku 3:0 í kvöld.

Eftir að Írarnir byrjuðu af krafti sóttu KA-menn fljótlega í sig veðrið og léku mjög vel í fyrri hálfleiknum, þegar öll mörkin voru skoruð. Gestirnir voru mikið með boltann í seinni hálfleik en sköpuðu sjaldan verulega hættu. KA bjargaði að vísu einu sinni á síðustu stundu en norðanmenn vörðust vel og létu Írana ekki slá sig út af laginu. Leið ágætlega eins og leikurinn þróaðist. Þeir írsku vilja mjög gjarnan fara upp kantana, reyndu ógrynni af fyrirgjöfum í leiknum en Jajalo markvörður KA átti yfirleitt ekki í neinum vandræðum.

KA-menn standa því vel að vígi fyrir seinni leikinn. Dundalk er vissulega prýðilegt lið en KA-strákarnir sýndu í dag að þeir eru agaðir og yfirvegaðir eru þeir færir í flestan sjó. Tveggja marka sigur á Dundalk ætti að vera hollt og gott veganesti til Írlands.

Skapti Hallgrímsson var með myndavélina á Framvellinum í kvöld.

_ _ _

SIGURÓLA MINNST
Leikmenn KA léku með sorgarbönd í kvöld vegna andláts Siguróla Magna Sigurðssonar, heiðursfélaga KA, sem lést nýlega. Fyrir leik var einnar mínútu þögn í minningu Siguróla.

_ _ _

EKKERT HIK
Írarnir stigu bensínið í botn strax eftir upphafsspyrnuna. Ekki var liðin mínúta þegar útherjinn Daniel Kelly lék fram vinstri kantinn og sendi inn á markteig þar sem einn samherja hans var nálægt því að ná boltanum en tókst ekki, sem betur fer. Jajalo markvörður handsamaði knöttinn.

_ _ _

RODRI SKÝTUR Í SLÁ
Eftir aukaspyrnu og darraðardans í vítateig Dundalk þrumaði spænski KA-maðurinn Rodri að marki, boltinn fór í varnarmann og hrökk af honum í þverslá og aftur fyrir. Stundarfjórðungur var liðinn af leiknum.

_ _ _

HÆTTULEGUR SKALLI
Patrick Hoben, hinn stæðilegi miðherji Dundalk, skallaði naumlega yfir KA-markið þegar rúmar 20 mínútur voru liðnar af leiknum. Þegar góð fyrirgjöf kom utan af kanti stökk hann hærra en Dusan Brkovic en náði ekki að stýra boltanum rétta leið.

_ _ _

GLÆSILEG SÓKN OG KA SKORAR
Tæpur hálftími var liðinn þegar KA náði glæsilegri skyndisókn. Hallgrímur Mar sendi á Bjarna Aðalsteinsson sem lék inni í teig, plataði varnarmann og skoraði af mikilli yfirvegum.



_ _ _

ÍRARNIR JAFNA
Fáeinum mínútum eftir mark Bjarna sofnuðu varnarmenn KA á verðinum og Daniel Kelly, sem áður var nefndur, skoraði af stuttu færi eftir fyrirgjöf.

_ _ _

SVEINN MARGEIR SKORAR
Önnur frábær skyndisókn KA skóp mark þegar 37 mín. voru liðnar. Að þessu sinni átti Daníel Hafsteinsson magnaða sendingu inn fyrir vörnina á Svein Margeir Hauksson sem afgreiddi boltann listavel í fjærhornið. Staðan orðin 2:1 fyrir KA.

_ _ _

AFTUR SKORAR SVEINN
Á lokamínútu fyrri hálfleiksins fékk Ásgeir Sigurgeirsson boltann fram hægri kantinn, hann tók á sprett og gaf fasta sendingu inn á vítateig þar sem Hallgrímur Mar plataði varnarmann upp úr skónum með því að láta boltann renna á milli fóta sér; boltinn fór beint á Svein Margeir Hauksson sem skoraði með föstu skoti yst úr teignum. Þetta reyndist síðasta spyrna hálfleiksins.

_ _ _

GÓÐ STEMNING
Stemningin á Framvellinum var prýðileg. Áhorfendur voru 915, KA-menn hvöttu sitt lið vel og dyggilega og fjörugir Írar, sem telja mátti á fingrum beggja handa, gerðu hvað þeir gátu til að syngja sína menn í stuð.

_ _ _

EDMUNDSSON FRUMSÝNDUR
Færeyski landsliðsframherjinn Jóan Símun Edmundsson, sem samdi við KA í vikunni, kom inn á þegar 10 mín. voru eftir af leiknum. Leysti þá tveggja marka manninn Svein Margeir af Hólmi og Elfar Árni kom samtímis inná fyrir Ásgeir Sigurgeirsson. 



_ _ _

SIGURGLEÐI
Sigrinum var að sjálfsögðu fagnað rækilega; njóta verður stundarinnar en muna strax í fyrramálið að verkefnið er einungis hálfnað!

 

Leikur KA og Dundalk á vef UEFA