Fara í efni
KA

Kemst KA áfram? Sjáið tilþrif Óðins!

Óðinn Þór Ríkharðsson hefur verið frábær með KA í vetur. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

KA-menn eða Haukar fagna sæti í undanúrslitum Íslandsmótsins í handbolta um níuleytið í kvöld. Spennan magnast!

Síðasta viðureign liðanna í átta liða úrslitunum hefst klukkan 19.30 á Ásvöllum, heimavelli Hauka í Hafnarfirði. Sigra þarf í tveimur leikjum til að komast áfram; KA vann fyrsta leikinn á Ásvöllum, Haukar jöfnuðu metin með sigri í KA-heimilinu svo úrslit ráðast í kvöld.

Báðir leikirnir hafa verið æsispennandi og vart mátt á milli sjá hvort liðið væri sterkara. Gera má ráð fyrir að úrslitin ráðist á einhverjum smáatriðum í kvöld sem endranær.

Óðins þáttur Ríkharðssonar

Hornamaðurinn frábæri, Óðinn Þór Ríkharðsson, sem varð markahæsti leikmaður Olís deildarinnar í vetur, hefur farið á kostum með KA í leikjunum tveimur við Hauka og gert alls 20 mörk, níu á Ásvöllum og 11 í seinni leiknum í KA-heimilinu.

Segja má að Óðinn Þór sé orðinn einskonar táknmynd KA-liðsins. Frammistaða hans hefur vakið verðskuldaða athygli, þar á meðal ævintýramörk í öllum regnbogans litum eftir hraðaupphlaup þar sem Óðinn tekur stundum upp á því að kasta boltanum aftur fyrir bak og í markið. Hann grípur jafnvel til slíkra töfrabragða þegar leikir eru hnífjafnir og vel heppnað skot af þessu tagi kveikir að sjálfsögðu enn frekar í stuðningsmönnum! Engum sögum fer hins vegar af blóðþrýstingi eða hjartslætti þjálfaranna þegar Óðinn Þór geysist fram völlinn! 

  • Leikur Hauka og KA verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.

Frammistaða Óðins Þórs og ævintýramörk hans voru tekin fyrir í handboltaþættinum Seinni bylgjunni á Stöð 2 eftir síðasta leik KA og Hauka. Sjónvarpsmennirnir héldu ekki vatni yfir tilþrifunum.