Fara í efni
KA

Kemst KA áfram í Evrópukeppninni?

Sveinn Margeir Hauksson fagnar öðru tveggja marka sinna í 3:1 sigrinum á Dundalk í síðustu viku ásamt Hallgrími Mar Steingrímssyni. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

KA getur í dag tryggt sér sæti í 3. umferð forkeppni Sambandsdeildar Evrópu í knattspyrnu þegar liðið mætir Dundalk frá Írlandi öðru sinni., nú á Orel Park leikvanginum í Dundalk. KA vann fyrri leik liðanna 3:1 í síðustu viku á heimavelli – Framvellinum í Reykjavík – og er því í ágætri stöðu fyrir rimmu dagsins.

Sigur KA í síðustu viku var býsna sannfærandi. Írarnir voru vissulega mikið með boltann í leiknum en náðu ekki að ógna marki KA-manna verulega. Norðanmenn gerðu þrjú glæsileg mörk eftir vel útfærðar skyndisóknir í fyrri hálfleik og í þeim seinni vörðust þeir afar skipulega og héldu þannig gestunum að mestu í skefjum.

Gera má ráð fyrir að Írarnir verði aftur mikið með boltann en KA-menn hafa sýnt undanfarið að liðsheildin er samstillt og fróðlegt verður að sjá hvernig þeim tekst til í dag. Miðvörðurinn Ívar Örn Árnason meiddist á dögunum, var ekki með í fyrri leiknum og ekki í deildarleiknum gegn HK á sunnudaginn, en að sögn Sævars Péturssonar, framkvæmdastjóra KA, leikur Ívar Örn í kvöld og einnig spænski miðjumaðurinn Rodri, sem hefur glímt við meiðsli undanfarið en þó leikið. Bjarni Aðalsteinsson, sem fór meiddur af velli gegn HK um helgina, hefur ekki náð sér að fullu en verður þó í hópi varamanna í kvöld.

Liðið sem kemst áfram í kvöld mætir mjög líklega Club Brugge frá Belgíu í næstu umferð. Belgíska liðið vann við AGF frá Danmörku 3:0 í  fyrri leik liðanna.

  • Umfjöllun Akureyri.net um fyrri leikinn: 

KA í góðum málum eftir sannfærandi sigur

Kjarngott veganesti til Írlands – MYNDIR

  • Leikur Dundalk og KA verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Útsending hefst kl. 18.35 og flautað verður til leiks kl. 18.45.

Byrjunarlið KA í fyrri leiknum við Dundalk. Aftari röð frá vinstri: Kristijan Jajalo, Rodri, Daníel Hafsteinsson, Dusan Brkovic, Sveinn Margeir Hauksson og Ásgeir Sigurgeirsson. Fremri röð frá vinstri: Pætur Petersen, Birgir Baldvinsson, Bjarni Aðalsteinsson, Hrannar Björn Steingrímsson og Hallgrímur Mar Steingrímsson. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson