Fara í efni
KA

KA/Þór velgdi toppliði Vals undir uggum

Valsarinn Þórey Anna Ásgeirsdóttir tekur Isabella Fraga engum vettlingatökum í dag. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Litlu munaði að KA/Þór gerði toppliði Vals skráveifu þegar liðin áttust við í KA-heimilinu í dag í Olís deildinni, efstu deild íslandsmótsins í handbolta. Að lokum höfðu gestirnir þó sigur, 26:23, þannig að Stelpurnar okkar höfðu ekkert upp úr krafsinu. 

Valur var í efsta sæti fyrir leikinn en KA/Þór í því neðsta þannig að varla hafa margir átt von á jöfnum leik en annað kom á daginn.

Gestirnir komust yfir strax í byrjun, forystan í fyrri hálfleik varð mest fimm mörk en að honum loknum var staðan 14:11.

Valsmenn létu forystuna ekki af hendi en heimaliðið stóð sig vel og hleypti gestunum aldrei úr augsýn. KA/Þór minnkaði muninn niður í eitt mark, 19:18, um miðjan seinni hálfleik, Valur komst aftur þremur mörkum yfir en þegar um fimm mínútur lifðu leiks munaði aðeins einu marki á ný, 24:23, eftir að Kristín A. Jóhannsdóttir skoraði úr vinstra horninu.

Sambland af óheppni og klaufaskap á lokamínútunum varð til þess að KA/Þór fékk ekki stig í dag. Leikurinn gefur þó vonir um að liðið haldi sæti sínu í deildinni, þar sem það á vitaskuld heima. KA/Þór er í harðri fallbaráttu við Stjörnuna og Aftureldingu og á eftir að fá bæði liðin í heimsókn.

Mörk KA/Þ​órs: Nathalia Soares Bali­ana 8, Lydía Gunnþórs­dótt­ir 6, Anna Þyrí Hall­dórs­dótt­ir 5, Aþena Ein­v­arðsdótt­ir 2, Rafa­ele Nascimento Fraga 1, Krist­ín A. Jó­hanns­dótt­ir 1.

Var­in skot: Matea Lonac 11.

Smellið hér til að sjá alla tölfræðina.

Matea Lonac vel á verði í marki KA/Þórs í dag. Hún varði 11 skot. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson