Fara í efni
KA

KA/Þór tapaði illa – ný brasilísk skytta

Andri Snær Stefánsson þjálfari KA/Þórs og nýr leikmaður liðsins, Bathália Baliana. Mynd af heimasíðu KA.

Lið KA/Þórs steinlá fyrir Stjörnunni í Garðabæ í kvöld, 29:18, í Olís deildinni í handbolta, efstu deild Íslandsmótsins.

Sigurinn var afar öruggur eins og tölurnar bera með sér og greinilegt að þjálfarateymið þarf tíma til að slípa saman hið unga og mikið breytta lið KA/Þórs. Nokkrir sterkir leikmenn hurfu á braut í sumar og í vikunni greindi handbolti.is frá því að Hulda Bryndís Tryggvadóttir, sem var með í tveimur fyrstu leikjunum, yrði ekki meira með í vetur þar sem hún gengi með sitt fyrsta barn. Þá var Rut Arnfjörð Jónsdóttir, yfirburðamaður í liðinu, ekki með í kvöld vegna meiðsla.

Ánægjulegt er að KA/Þór hefur borist liðsauki, hin tvítuga Nathália Soares Baliana, brasilísk, rétthent skytta sem leikið hefur í Portúgal síðustu tvö ár. Nathálía hefur æft með liðinu undanfarið, allir pappírar eru nú klárir og hún var með í fyrsta skipti í kvöld.

Mörk KA/Þ​órs: Hild­ur Lilja Jóns­dótt­ir 4, Nathália Soares Bali­ana 4, Lydía Gunnþórs­dótt­ir 3, Krist­ín Aðal­heiður Jó­hanns­dótt­ir 2, Aþena Einvarðsdóttir 1, Anna Þyrí Halldórsdóttir 1, Telma Lísa Elmarsdóttir 1, Hildur Marín Andrésdóttir 1 og Júlía Björnsdóttir 1.

Var­in skot: Matea Lonac 12, Telma Ósk Þór­halls­dótt­ir 1.

Næstu tveir leikir KA/Þórs eru í Evrópukeppninni gegn WHC Gjorche Petrov frá Norður-Makedóníu. Leikirnir verða báðir í KA-heimilinu, sá fyrri á föstudagskvöld kl. 19.30 og hinn síðari kl. 19.30 á laugardagskvöld.

Smellið hér til að sjá alla tölfræði frá hbstatz