Fara í efni
KA

KA/Þór mætir FH í undanúrslitunum

Martha Hermannsdóttir, fyrirliði KA/Þórs með Íslandsbikarinn í vor. Ef allt verður með felldu fer liðið örugglega í úrslit bikarkeppninnar. Ljósmynd: Sara Skaptadóttir.

KA/Þór sigraði Stjörnuna í kvöld, 28:23, í átta liða úrslitum bikarkeppni kvenna í handbolta, Coca Cola bikarkeppninni, í Garðabæ. Eftir leik var dregið í undanúrslitum og Stelpurnar okkar duttu í lukkupottinn; mæta FH, sem leikur í næst efstu deild, en í hinni viðureigninni eigast við Reykjavíkurstórveldin Fram og Valur.

Valur vann ÍBV í kvöld, Fram lagði Hauka og FH sigraði Víking, sem einnig leikur í næst efstu deild.

Undanúrslit bikarkeppni kvenna verða fimmtudaginn 30. september á Ásvöllum í Hafnarfirði og úrslitaleikir bæði karla og kvenna verða laugardaginn 2. október á sama stað.

Íslandsmeistarar KA/Þórs voru lengi í gang í kvöld, voru nokkrum sinnum þremur mörkum undir í fyrri hálfleik en hristu af sér slenið og höfðu eins marks forystu í hálfleik, 12:11. Meistararnir léku svo lengst af mjög vel í seinni hálfleik, náðu mest níu marka forystu – 24:15 – en munurinn var fimm mörk þegar flautað var til leiksloka.

Mörk KA/Þórs: Martha Hermannsdóttir 8 (5 víti), Rakel Sara Elvarsdóttir 4, Rut Jónsdóttir 4, Ásdís Guðmundsdóttir 3, Aldís Ásta Heimisdóttir 3, Unnur Ómarsdóttir 3, Sólveig Lára Kristjánsdóttir 2 og Hulda Bryndís Tryggvadóttir 1.

Varin skot: Sunna Guðrún Pétursdóttir 5, Matea Lonac 5/1

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna.