Fara í efni
KA

KA/Þór fór mjög auðveldlega áfram

Komnar áfram! Leikmenn KA/Þórs og Erla Hleiður Tryggvadóttir, liðsstjóri, fagna eftir sigurinn í Kósóvó í dag. Ljósmynd: Elvar Jónsteinsson.

KA/Þór komst mjög örugglega áfram í Evrópubikarkeppninni í handbolta, þegar liðið sigraði KHF Istogu annan daginn í röð – nú 37:34 – í borginni Istog í Kósóvó.

Stelpurnar okkar unnu 26:22 í gær og samanlagt 63:56. Viðureignin í dag var heimaleikur KA/Þórs

Snemma leiks varð ljóst að Íslands- og bikarmeistararnir færu áfram í næstu umferð því KA/Þór náð fljótlega öruggri forystu. Liðið lék frábærlega og staðan í hálfleik var 24:15.

Byrjunarlið KA/Þórs sat á varamannabekknum lungann úr seinni hálfleik, enda úrslitin löngu ljós og þjálfararnir vildu greinilega gefa öðrum tækifæri til að öðlast dýrmæta reynslu.

Seinni hálfleikurinn einkenndist af miklum hraða og fjölmörgum mistökum beggja liða, bæði í sókn og vörn. Þegar tæpar 10 mínútur voru liðnar af seinni hálfleik munaði 12 mörkum, staðan þá 30:18, en rúmu kortéri síðar höfðu Kósóvóarnir minnkað muninn niður í tvö mörk – 33:31. KHF vann sem sagt þann kafla 13:3.

Rakel Sara Elvarsdóttir gerði 7 mörk í dag, Martha Hermannsdóttir 6, Unnur Ómarsdóttir 5, Aldís Ásta Heimisdóttir, Sólveig Kristjánsdóttir og Ásdís Guðmundsdóttir 3 hver, Telma Lísa Elmarsdóttir, Kristín Aðalheiður Jóhannsdóttir og Hulda Bryndís Tryggvadóttir 2 hver og þær Júlía Sóley Björnsdóttir, Anna Mary Jónsdóttir, Rut Jónsdóttir og Hildur Lilja Jónsdóttir 1 mark hver.

Sunna Guðrún Pétursdóttir varð 10 skot og Matea Lonac 7.