Fara í efni
KA

KA/Þór endurheimtir Rakel Söru

Rakel Sara Elvarsdóttir leikur aftur með KA/Þór á komandi tímabili. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Rakel Sara Elvarsdóttir er á leið heim og mun leika með KA/Þór á komandi tímabili, en hún hélt utan til Noregs og spilaði með Volda í norsku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili. Handboltafréttavefurinn handbolti.is segir frá heimkomu Rakelar Söru og þar kemur fram að hún hafi staðfest komu sína í KA/Þór við handbolta.is.

Rakel Sara var lykilleikmaður í liði KA/Þórs sem varð deildar-, bikar- og Íslandsmeistari vorið 2021, þá nýorðin 18 ára. Hún samdi við norska liðið vorið 2022 og lék með liðinu á síðasta tímabili, en liðsins biðu þau örlög að falla niður um deild í vor. Þetta eru virkilega góðar fréttir fyrir KA/Þór fyrir komandi tímabil enda hefur liðið gengið í gegnum breytingar í hópnum og lykilleikmenn einnig í hléi vegna barneigna.