Fara í efni
KA

KA vann og hélt sæti sínu í efstu deild

Gauti Gunnarsson var markahæstur í dag í síðasta leiknum með KA. Hann heldur heim til Vestmannaeyja á ný í sumar eftir einn vetur á Akureyri. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson
KA-mönnum var sannarlega létt síðdegis þegar flautað var til leiksloka í lokaumferð Olís deildarinnar, efstu deildar Íslandsmótsins í handbolta. KA lagði Gróttu að velli á Seltjarnarnesi, 31:30, og hélt þar með sæti sínu í deildinni eftir erfiðan vetur.
 
Þar sem ÍR tapaði fyrir Fram á sama tíma hefði KA haldið sér í deildinni þrátt fyrir tap á Nesinu, en fyrir leikinn voru bæði ÍR og KA í fallhættu. KA lýkur keppni með 13 stig í leikjuum 22 en ÍR fékk 10 stig.
 
Leikurinn á Seltjarnarnesi var hnífjafn nánast allan tímann. KA var með frumkvæðið í fyrri hálfleik en munurinn var aðeins eitt mark að honum loknum, 19:18 fyrir KA. Hið sama var upp á teningnum í seinni hálfleik, KA skrefi á undan en munurinn var mestur tvö en aðeins eitt nánast allan tímann.
 
Grótta jafnaði 17 sekúndum fyrir leikslok úr hraðaupphlaupi eftir að KA missti boltann en hornamaðurinn Gauti Gunnarsson gerði síðasta mark leiksins á lokasekúndunni; kvaddi KA með sigurmarkinu en Eyjamaðurinn fer heim til ÍBA á ný í sumar.
 
Mörk KA í dag: Gauti Gunnarsson 8, Einar Rafn Eiðsson 7 (2 víti), Ólafur Gústafsson 6, Jens Bragi Bergþórsson 3, Patrekur Stefánsson 2, Dagur Gautason 2, Skarphéðinn Ívar Einarsson 2, Einar Birgir Stefánsson 1.
 
Varin skot: Bruno Bernat 8 – (28%), Nicholas Adam Satchwell 1 – (9,1%)
 
KA-menn eru þar með komnir í sumarfrí en úrslitakeppni átta efstu liða um Íslandsmeistaratitilinn hefst um næstu helgi. 
 

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna

Einar Rafn Eiðsson gerði sjö mörk fyrir KA í dag og varð markahæstur í deildarkeppninni með 162 mörk - 7,36 að meðaltali í leik. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson