Fara í efni
KA

KA vann, jafnt hjá Þór og stelpurnar töpuðu

Kristófer Kristjánsson gerði eitt mark fyrir Þór og lagði upp tvö – Sveinn Margeir Hauksson gerði sigurmark KA gegn Fram. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson.

Öll Akureyrarliðin þrjú léku í deildarbikarkeppninni í knattspyrnu um helgina. Þór og KV gerðu jafntefli í Boganum á laugardaginn, KA vann Fram á sama stað í gær og Þór/KA mætti Aftureldingu fyrir sunnan í gær, þar sem heimaliðið sigraði.

  • Þór - KV 3:3

Harley Willard (21. mín.), Kristófer Kristjánsson (35.) og Sigfús Fannar Gunnarsson (43.) komu Þór í 3:0 en gestirnir minnkuðu muninn á lokaandartökum fyrri hálfleiks. KV gerði svo tvö mörk í seinni hálfleik og jafntefli því niðurstaðan. Þórsarar leika í 2. riðli A-deildar og eru með tvö stig eftir þrjá leiki, höfðu áður tapað fyrir ÍA og gert jafntefli við Stjörnuna.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna.

  • KA - Fram 1:0

Sveinn Margeir Hauksson gerði eina markið á 79. mínútu, 10 mínútum eftir að hann kom inn á í stað Elfars Árna Aðalsteinssonar. KA er með sjö stig eftir þrjá leiki í 4. riðli A-deildar, hafa unnið tvo leiki og gert eitt jafntefli.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna.

  • Afturelding - Þór/KA 2:1

Mosfellingar komust í 2:0 í fyrri hálfleik en Þór/KA minnkaði muninn snemma í þeim seinni, þegar einn heimamanna varð fyrir því óláni að gera sjálfsmark. Leikurinn átti að fara fram í Mosfellsbænum en aðstæður þar voru skrautlegar; töluvert snjóaði og ekki tókst að skafa almennilega af honum þannig að viðureignin var færð inn í Kórinn í Kópavogi. Stelpurnar leika í 2. riðli A-deildar eru með þrjú stig að loknum tveimur leikjum, höfðu áður lagt Keflvíkinga að velli.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna.