Fara í efni
KA

KA vann ÍA og fór í annað sætið – MYNDIR

Nökkvi Þeyr Þórisson fagnar fyrra marki sínu í gær, sæll og glaður, en gleði boltastrákanna á þessu augnabliki virðist ennþá meiri! Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

KA-menn unnu Akurnesinga 3:0 í Bestu deildinni í knattspyrnu í gær á heimavelli. Nökkvi Þeyr Þórisson gerði tvö mörk og Hallgrímur Mar Steingrímsson eitt. Nökkvi er þar með orðinn markahæstur í deildinni – hefur gert 13 mörk í 17 leikjum.

KA er í öðru sæti deildarinnar með 33 stig, Víkingar eru í þriðja sæti með 30 stig en eiga tvo leiki til góða, og Breiðablik er efst sem fyrr með 38 stig að loknum 16 leikjum. Breiðablik og Víkingur mætast einmitt í kvöld.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna.

_ _ _

ARNAR Í GÓÐUM GÍR
Arnar Grétarsson, þjálfari KA, var úrskurðaður í fimm leikja bann eftir viðureignina við KR á dögunum. Rimman við ÍA var annar leikur hans í banni og báðir hafa unnist örugglega, enda var Arnar í góðum gírum í hópi áhorfenda í gær. Þeir eru lengst til vinstri uppi á pallinum, snemma leiks,  Arnar og Ásgeir Sigurgeirsson, fyrirliði KA, sem er meiddur. 

_ _ _

RAUTT SPJALD
Akurnesingurinn Hlynur Sævar Jónsson var rekinn af velli á 36. mínútu. Hallgrímur Mar Steingrímsson var að sleppa í gegn um vörn ÍA og Hlynur Sævar braut á honum. Pétri Guðmundssyni dómara var boðið upp á ráðleggingar frá leikmönnum beggja liða en þær hafa án nokkurs vafa engu skipt; hann fór sér að engu óðslega en dró á endanum rauða spjaldið upp úr rassvasanum og vísaði Skagamanninum af velli. 

_ _ _

MJÓU MUNAÐI
Sveinn Margeir Hauksson var nálægt því að ná forystu fyrir KA undir lok fyrri hálfleiksins. Nökkvi Þeyr sendi fyrir utan af vinstri kanti, Sveinn var á undan Árna Marinó Einarssyni markverði og einum varnarmanna gestanna í boltann en skallaði hann í stöng, þaðan sem boltinn hrökk beint í fang markvarðarins.

_ _ _

SKIPTAR SKOÐANIR
Gísli Laxdal, leikmaður ÍA, féll og lá um stund eftir að Dusan Brkovic sótti að honum snemma í seinni hálfleik þegar Gísli var að sleppa inn fyrir vörnina, Skagamenn höfðu hátt og heimtuðu þegar í stað rautt spjald að því er virtist – en Pétur dómari sá ekki einu sinni ástæðu til þess að flauta.

_ _ _

NÖKKVI BRÝTUR ÍSINN
Það var á 68. mínútu, rúmum klukkutíma eftir að Hlynur Sævar var rekinn út af, að KA-menn náðu loks að snúa á vörn ÍA með þeim árangri að úr varð mark. Varnarmaður hitti ekki boltann þegar hann hugðist sparka burt og eftir darraðardans í teignum kom Jakob Snær Árnason boltanum til Sveins Margeirs Haukssonar, hann renndi til hliðar og Nökkvi Þeyr Þórisson skoraði með föstu skoti utarlega úr teignum vinstra megin; sendi boltann með jörðinni í hornið fjær.

_ _ _

HALLGRÍMUR SKORAR
Hallgrímur Mar Steingrímsson gerði annað markið á 68. mín. Nökkvi Þeyr sendi á hann, Hallgrímur smeygði sér á milli varnarmanna og skoraði af öryggi úr miðjum vítateignum. Og fagnaði síðan með tilþrifum!

_ _ _

NÖKKVI ORÐINN MARKAHÆSTUR
Nökkvi Þeyr Þórisson – hver annar! – gerði þriðja mark KA í blálokin. Steinþór Freyr Þorsteinsson fékk boltann við miðlínu, geystist fram völlinn og sendi til vinstri, Nökkvi fékk boltann rétt innan við vítateigshornið og skoraði með þéttingsföstu skoti í fjærhornið. Egill Bjarni Friðjónsson tók þessar tvær síðustu myndir. Nökkvi er orðinn markahæstur í deildinni, hefur gert 13 mörk í 17 leikjum, eins og áður sagði.