Fara í efni
KA

KA vann Fram í fjörugum leik - MYNDIR

Jakob Snær Árnason, til vinstri, eftir að hann gerði þriðja mark KA á 85. mínútu og tryggði liðinu í raun stigin þrjú. Hallgrímur Mar Steingrímsson til hægri. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

KA-menn unnu mikilvægan 4:2 sigur á Fram í 9. umferð Bestu deildar karla í dag eins og Akureyri.net greindi frá fyrr í kvöld - sjá hér. Fyrir leikinn hafði liðið tapað þremur deildarleikjum í röð og ekki náð að skora í þeim leikjum. Það mátti greina létti á vellinum í dag eftir brösugt gengi KA undanfarið. Eftir leikinn er liðið í fimmta sæti deildarinnar með 14 stig. Næsti leikur KA er á útivelli gegn Stjörnunni þann 2. júní næstkomandi.

Heimaliðið byrjaði leikinn betur en gestirnir og sköpuðu sér fleiri færi. Þrátt fyrir það áttu Framarar hættulegar rispur þegar liðið komst í skyndisóknir. Nokkuð mikill vindur var í fyrri hálfleiknum og hafði það töluverð áhrif þar sem hvorugu liðinu gekk vel að senda háar sendingar, þær enduðu yfirleitt á andstæðing eða út fyrir hliðarlínu.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna.

_ _ _ 

FRÁBÆR MARKVARSLA JAJALO
Framarar fengu frábært færi á 25. mínútu leiksins. Í einni af skyndisóknum gestanna komst Magnús Þórðarson í einn á einn stöðu gegn Dusan Brkovic. Magnús keyrði inn í teig og lagði boltann út á Aron Jóhannsson sem átti fast skot en Kristijan Jajalo gerði virkilega vel í að verja. Þetta var langbesta færi leiksins hingað til þrátt fyrir að KA liðið hafði verið mun meira með boltann.

_ _ _

FRAM TEKUR FORYSTUNA
Fyrsta mark leiksins leit dagsins ljós á 33. mínútu og voru það Framarar sem gerðu það. Eftir fínt spil gestanna komst Fred á ferðinni vinstra megin inn í teiginn. Hann átti skot sem hafnaði í stönginni en Guðmundur Magnússon var þar einn og óvaldaður og kom boltanum yfir línuna. Klassískt framherjamark á fjærstönginni.

_ _ _

VÍTASPYRNA! HALLGRÍMUR MAR FELLDUR
Örskömmu síðar fengu KA-menn vítaspyrnu. Eftir góðan sprett frá Ásgeiri náði hann að koma boltanum á Elfar Árna í teignum. Elfar náði að koma boltanum fyrir markið á vítapunktinn þar sem Hallgrímur Mar kom á ferðinni og átti skot sem Ólafur Íshólm varði. Óskar Jónsson fór hins vegar ansi harkalega í Hallgrím í skotinu og víti réttilega dæmt.

_ _ _

FYRSTA MARK HALLGRÍMS
Hallgrímur Mar fór sjálfur á punktinn og skoraði af miklu öryggi Á 37. mínútu. Sendi Ólaf Íshólm í rangt horn. Þetta var fyrsta mark Hallgríms í deildinni í sumar.

_ _ _

KA TEKUR FORYSTU
Staðan var jöfn þegar Einar Ingi Jóhannsson flautaði til hálfleiks. KA-menn byrjuðu seinni hálfleikinn töluvert betur en Fram og uppskáru mark á 51. mínútu leiksins. Eftir hornspyrnu frá Hallgrími Mar reis Bjarni Aðalsteinsson hæst í teignum og átti skalla að marki. Skallinn var laus en alveg út við stöng og endaði í markinu. Ólafur Íshólm verður ekki ánægður með að sjá þetta í sjónvarpinu eftir leik.

_ _ _

FRAM JAFNAR ÚR ÓDÝRU VÍTI
Aðeins þremur mínútum eftir mark Bjarna fengu Framarar víti. Már Ægisson var þá felldur í teignum af Hrannari Birni Steingrímssyni að mati Einars dómara. Snertingin virtist ekki mikil og mótmæltu KA-menn dómnum harkalega. En Einar stóð á sínu og vítaspyrna dæmd. Fred Saraiva fór á punktinn og skoraði af öryggi. Boltinn alveg út við stöng og Kristijan Jajalo fór í vitlaust horn.

_ _ _

JAKOB KEMUR KA YFIR
Eftir jöfnunarmark Framara róaðist leikurinn töluvert. Ekki var mikið um færi og ef eitthvað þá voru það Framarar sem voru líklegri. Rétt eftir markið gerði Hallgrímur Jónasson tvöfalda skiptingu. Jakob Snær Árnason og Harley Willard komu þá inn fyrir Ásgeir Sigurgeirsson og Elfar Árna Aðalsteinsson og það var einmitt Jakob Snær sem kom KA yfir á 85. mínútu leiksins. Þorri Mar keyrði þá upp vinstri kantinn, lék innar á völlinn og átti skot í átt að marki. Þar náði Jakob að stýra boltanum í nærhornið þar sem Ólafur Íshólm náði ekki til hans. Virkilega mikilvægt mark fyrir KA. Jakob Snær fagnaði innilega eftir markið en hann hefur verið að komast af stað aftur eftir meiðsli aftan í læri. 

_ _ _

JAKOB GULLTRYGGIR SIGURINN
Eftir þriðja mark KA reyndu Framarar allt hvað þeir gátu til að jafna leikinn og við það opnaðist vörn gestanna. Jakob Snær skoraði sitt annað mark þegar vallarklukkan sýndi 93. mínútu og gulltryggði sigur KA. Hallgrímur Mar gerði þá vel á miðjunni og sendi boltann fram á Harley Willard sem var kominn einn í gegn ásamt Jakobi. Harley lagði boltann á Jakob inn í teignum sem skoraði með föstu skoti uppi í hornið.