Fara í efni
KA

KA vann Aftureldingu og úrslit ráðast í oddaleik

KA-stelpurnar þegar þær fögnuðu deildarmeistaratitlinum fyrr í vor. Þær geta orðið Íslandsmeistarar á heimavelli á föstudagskvöldið. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

KA vann Aftureldingu í fjórða úrslitaleik Íslandsmóts kvenna í blaki í Mosfellsbæ í kvöld og liðin mætast því í oddaleik - hreinum úrslitaleik - um Íslandsmeistaratitilinn í KA-heimilinu á föstudagskvöldið.

Fyrir leikinn í kvöld hafði Afturelding unnið tvo leiki en KA einn, og því var lífsspursmál fyrir KA-stelpurnar að vinna. Að öðrum kosti hefðu andstæðingarnar fagnað Íslandsmeistaratitlinum.

Afturelding vann fyrstu hrinuna örugglega, 25:18, en KA þá næstu 25:21. Afturelding sigraði síðan í þriðju hrinu með yfirburðum, 25:12 en KA stelpurnar svöruðu með því að vinna þá fjórðu örugglega, 25:19, og loks oddahrinuna 15:13 á æsispennandi lokaspretti.