Fara í efni
KA

KA upp í fjórða sæti eftir sigur á Leikni

Ásgeir Sigurgeirsson, fyrirliði KA, gerði eina markið á Leiknisvellinum í dag. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

KA-menn náðu í þrjú dýrmæt stig þegar þeir báru sigurorð af Leiknismönnum, 1:0, í Reykjavík undir kvöld. Með sigrinum fer KA upp fyrir KR á Íslandsmótinu; er komið í fjórða sæti með 23 stig að loknum 13 leikjum, stigi meira en KR eftir jafn marga leiki.

Aðstæður voru ekki heppilegar á Leiknisvellinum, hvasst og rigning og leikmenn náðu ekki að sýna sparihliðarnar. 

  • 0:1 (13. mínúta) Ásgeir Sigurgeirsson fékk boltann utan við vinstra vítateigshornið, lék nokkra metra innar á völlinn og áður en varnarmaður náði að trufla hann að ráði skaut Ásgeir að marki; boltinn sveif í fallegum boga eftir fasta og hnitmiðaða innanfótarspyrnu og endaði í netinu, alveg út við stöng. Ásgeir hefur þar með gert sex mörk í sumar og er markahæstur KA-manna ásamt Hallgrími Mar Steingrímssyni.

Leiknismenn voru ákveðnari í fyrri hálfleiknum, fengu nokkur ákjósanleg tækifæri til að skora en markvörður KA, Steinþór Már Auðunsson – Stubbur, sá við þeim; félagar hans gátu þakkað Steinþóri fyrir að vera með forystuna eftir fyrri hálfleikinn.

Síðari hálfleikur var ekki skemmtilegur þótt ekki vantaði viljann og menn berðust eins og ljón. Leiknismenn voru meira með boltann en gestirnir höfðu mestan áhuga á að verja markið og góður varnarleikur þeirra kom í veg fyrir að lið Leiknis næði að skapa hættu svo orð sé á gerandi. Eins og jafnan eru það stigin sem skipta öllu máli þegar upp er staðið; þau eru talin að leikslokum, annað ekki.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna.

Steinþór Már Auðunsson lék mjög vel í marki KA í dag. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.