Fara í efni
KA

KA tekur á móti liði Uppsveita í bikarnum

Jakob Snær Árnason skorar fyrsta mark KA í bikarkeppni KSÍ á síðasta ári, í 4:1 sigri á Reyni frá Sandgerði í 32 liða úrslitum. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

KA-menn hefja í dag leik í bikarkeppni Knattspyrnusambandsins, Mjólkurbikarkeppninni, þegar lið Uppsveita kemur í heimsókn. Flautað verður til leiks á Greifavellinum sunnan við KA-heimilið kl. 18.00.

Lið Uppsveita leikur í 4. deild Íslandsmótsins, þeirri fimmtu efstu, og er – eins og nafnið bendir til – úr uppsveitum Árnessýslu og spilar heimaleiki sína á Flúðum.

Á heimasíðu KA er í dag rifjað upp hvernig lið Uppsveita komst í 32-liða úrslit bikarkeppninnar: 

„Uppsveitir slógu út Hamar í fyrstu umferð Mjólkurbikarsins með 7-0 stórsigri á heimavelli þar sem George Razvan Chariton gerði fernu og Sergio Fuentes Jorda gerði þrennu. Liðið tryggði sér svo sæti í 32-liða úrslitum með 4-3 sigri á KÁ þar sem George Razvan Chariton, Víkingur Freyr Erlingsson, Tómas Stitelmann og Máni Snær Benediktsson gerðu mörkin.“